150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

724. mál
[16:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Við vorum að fá upplýsingar fyrr í dag, fyrir tiltölulega stuttu síðan, um umfang umsókna í Nýsköpunarsjóð námsmanna, en þar eru 992 umsóknir fyrir 4.060 mánuði eða fyrir 1.397 stúdenta eða nemendur. Þessi breytingartillaga sem ég legg hér fram upp á 3,3 milljarða [Sjá leiðréttingu þingmannsins í ræðu kl. 16:38.] er í rauninni til að fjármagna þær umsóknir. Ef við skoðum aðgerðir stjórnvalda hvað þetta varðar og málflutning hjá ráðherrum og stjórnarþingmönnum þá hljómar það eins og þær aðgerðir sem hafa verið lagðar til dugi. Ef ekki, þá grípum við inn í seinna. Við í Pírötum höfum hins vegar lagt áherslu á nýsköpun því að þar erum við að grípa þau tækifæri sem eru til. Þau skilaboð sem við höfum fengið frá hinum ýmsu sjóðum og þeim sem þekkja til í þessu eru að tækifærin eru fjölmörg. Það kom í ljós varðandi umsóknarhlutfall og þær umsóknir sem fengu styrki, t.d. úr Tækniþróunarsjóði, að margar af þeim umsóknum sem voru með hæstu einkunn fengu ekki úthlutun. Það hefur verið að grynnast eitthvað á því, sem betur fer, eftir undanfarnar umferðir fjárauka. En betur má ef duga skal.

Rökin fyrir því að hafna þeim breytingartillögum sem minni hlutinn hefur lagt til, t.d. um að námsmenn geti farið á atvinnuleysisbætur, eru vandkvæðum bundin því að ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar duga til að koma til móts við minna framboð á störfum fyrir námsmenn o.s.frv., þá ætti það ekki að kosta neitt að hafa alla vega það öryggisnet sem það væri að leyfa námsmönnum að sækja um atvinnuleysistryggingar. Það myndi ekki kosta neitt ef aðgerðirnar duga. Ef menn hafa traust á þeim aðgerðum sem þeir leggja fram, þá ættu þeir líka að geta sagt: Fínt, ekkert mál að námsmenn geti líka sótt um atvinnuleysistryggingar — af því að þeir munu ekki sækja um þær, það verður nóg af störfum. Þess í stað virðist umræðan vera á þann hátt að menn segja: Við skulum sleppa því núna, en ef vandamálið kemur upp — og það hefur að sjálfsögðu komið upp þar sem ýmsir hafa misst vinnuna síðan í mars og námsmenn sem voru í hlutastörfum gátu að miklu leyti ekki nýtt sér hlutabótaleiðina og þess háttar — ef aðstæðurnar koma upp þá ætlum við að grípa til aðgerða og laga þetta eftir á. En skaðinn er skeður og það er oft erfiðara að grípa inn í og laga hlutina eftir á heldur en að sjá þá fyrir og gera öryggisráðstafanir áður en skaðinn er skeður. Þess vegna eru það vonbrigði að meiri hlutinn skuli hafa hafnað tillögum um að leyfa nemendum að sækja um á atvinnuleysistryggingum, á sama tíma og við erum að leggja til að auka fjárframlög í nýsköpun og sérstaklega á þessu sviði, hjá Nýsköpunarsjóði námsmanna, og því er líka hafnað. Fyrri breytingartillögum um það hefur verið hafnað eins og með unga frumkvöðla.

Nú erum við með upplýsingar um umsóknir í Nýsköpunarsjóði námsmanna og leggjum fram breytingartillögu til að fjármagna þær umsóknir. Það eru augljós gefin störf þar undir og verður áhugavert að sjá hvernig atkvæði falla, mér finnst líklegt að ég geti giskað rétt á hvernig það fer en leyfi áhorfendum og áheyrendum að giska sjálfum.

Í morgun fékk fjárlaganefnd fjármálaráð í heimsókn. Það var búið að biðja um að fjármálaráð kæmi til skrafs og ráðagerða fyrr í þessu ferli en það var ekki fyrr en eftir 2. umr., fyrir 3. umr., sem fjármálaráð kom og heimsótti okkur í fjárlaganefnd. Það voru líka þó nokkuð margir fulltrúar úr efnahags- og viðskiptanefnd viðstaddir þann fund. Ef það ætti að súmmera upp í nokkrum orðum hvað kom fram á þeim fundi þá myndi ég alla vega skilja það sem svo að það væri skortur á gagnsæi. Það var skortur á samhengi, skortur á útskýringum á því hvernig aðgerðir stjórnvalda mæta þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Mótrökin hafa alltaf verið þau að það sé svo mikil óvissa að við getum ekki sagt neitt um það. Við erum í rauninni að henda peningum í óvissuna, það er hola að birtast fyrir framan okkur og við erum bara að moka ofan í hana. Þar er ákveðinn skortur á skilvirkni. Það er ekkert mat á því, bara ágiskun. Upp úr krafsinu kemur einmitt, í kjölfarið á því að gripið er til flýtiaðgerða, að þær leiðir sem hafa verið lagðar til hafa verið misnotaðar á einhvern hátt. Það er dæmi um skort á skilvirkni, dæmi um vandamál við að greina vandann á einhvern hátt áður en reynt er að takast á við hann.

Fjármálaráð hefur talað um það í fyrri álitum sínum að það sé ekki hluti af grunngildum laga um opinber fjármál fyrir fjármálaráð að meta skilvirkni og raunsæi fjárlaga, fjármálaáætlunar og fjármálastefnu. Það er dálítið áhugavert. Það setur fjármálaráði dálítið strangar skorður og mun þrengri skorður í raun en gengur og gerist í sambærilegum ráðum í nágrannalöndum. Ég nefndi í andsvörum áðan fjármálaráð Svíþjóðar sem gefur út skýrslu á hálfs árs fresti um efnahagsmál og þess háttar. Einnig gefur fjármálaráð eða ákveðin fjármálaskrifstofa í Svíþjóð álit um kosningaloforð flokka fyrir kosningar. Við erum ekki alveg komin þangað, en ég held að við höfum þróast dálítið í þá áttina undanfarin ár. Fyrir kosningar 2016 gáfu Píratar t.d. út skuggafjárlög. Það var í fyrsta skipti sem stjórnmálasamtök gáfu út heil fjárlög fyrir kosningar til að sýna á spilin. Það vakti ekkert rosalega mikla athygli, kannski af því að fólk bjóst einfaldlega ekki við þessu, það var óvænt á einhvern hátt og fólk vissi ekki hvernig það átti að taka því. Píratar lögðu einnig til hugmyndir um að flokkar myndu segja fyrir kosningar með hvaða öðrum flokkum þeir gætu hugsað sér að vinna í nokkurs konar kosningabandalagi. Það fór eins og það fór. Ég held þó að það sé tvímælalaust eitthvað sem væri hægt að gera betur og gera meira af fyrir næstu kosningar o.s.frv. Það er nefnilega svo áhugavert að skoða íslensk stjórnmál í samhengi við meiri hlutann í stjórnmálum eins og þau eru stunduð hérna. Þau einkennast dálítið af því að meiri hlutinn ákveður að ráða öllu, þar á meðal hvort tillögum um fjárveitingu í Nýsköpunarsjóð námsmanna sé einfaldlega hafnað eða ekki, óháð því hver sannfæring hvers þingmanns er. Það getur nefnilega ekki verið að sannfæring þingmanna sé svo rosalega bundin línum í rauninni að tilviljun ein ráði því að þeir séu alltaf sammála eða ósammála breytingartillögum minni hluta, svo merkilegt sem það er.

Það eru mjög miklar áskoranir á næstu árum og óvissan á næstu mánuðum fer vonandi minnkandi en óvissunni hefur ekki verið mætt með samhengi í aðgerðum stjórnvalda. Við fáum skilaboð um að næsti pakki sé um atvinnumál og eitthvað svoleiðis. En hvert er samhengi þess við fyrri pakka? Hvaða hluti var verið að brúa í þeim og vantar upp á núna? Það eru upplýsingar sem við hefðum átt að fá þegar við hófum þessa vegferð, að við séum að fara eftir ákveðinni áætlun sem er fyrirsjáanleg á einhvern hátt. Um það snúast lög um opinber fjármál, að gera aðgerðir stjórnvalda í efnahagsmálum fyrirsjáanlegri með því að stjórnvöld segi það mun skýrar hvað þau ætli að gera og af hverju. Þetta hefur fjármálaráð gagnrýnt í undanförnum álitum sínum.

Einnig kom fram á fundinum að helstu áskoranir á næstunni verða batinn í efnahagnum þegar ástandinu sem við erum að klára núna verður lokið, það er verið að aflétta höftum o.s.frv., og hvernig við komum til baka úr því, sérstaklega með tilliti til sjálfbærni. Það verða aðalatriðin á næstunni hvernig við stuðlum að sjálfbærni í opinberum fjármálum, hvernig við tökum á efnahagskerfinu, hvernig við tökum á samfélaginu eftir þetta áfall.

Sérstök athygli var vakin á einu atriði, sem varðar skuldareglurnar. Þær reglur gætu mögulega verið skaðlegar fyrir aðgerðir til að ná bata í efnahagslífinu. Eins og oft hefur verið áður sagt þá eru þessar reglur eru mannanna verk og þær eru mun þrengri, mun stífari en í þeim löndum sem hafa svipuð lög um opinber fjármál og við. Það er auðvelt að gera þann samanburð og hefur komið fram áður varðandi spennitreyjur o.s.frv., sem tengist ekki beint en er í svipuðu mengi. Við verðum að huga að því að fjármálareglur sem varða t.d. skuldir og endurgreiðslu skulda gætu unnið á móti markmiðum laga um opinber fjármál. Ég kalla eftir því í þeim áætlunum sem koma frá stjórnvöldum á næstunni, m.a. í fjármálastefnu sem á eftir að setja. Þar eru náttúrlega bara núverandi stjórnvöld að setja sér fjármálastefnu fyrir afganginn af kjörtímabilinu og það vita allir að næstu stjórnvöld verða að setja nýja fjármálastefnu, en það er samt nauðsynlegt fyrir núverandi stjórnvöld að sýna það tímabil sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál og hvernig við færum í gegnum þær aðstæður sem við erum í núna miðað við óbreytt kjörtímabil. Við ættum bara að skilja við þetta á þeim nótum.

Það verður ekki auðvelt að ná bata í kjölfarið á þessu ástandi og þó að reglurnar séu eins skýrar og þær eru þá höfum við fengið skilaboð um að þær séu mögulega skaðlegar. Við skulum vinsamlegast taka tillit til þess því að markmið okkar er fyrst og fremst að gera lífið betra fyrir fólkið hérna fyrir utan, ekki fyrir okkur hérna inni, og með það í huga hljótum við að geta gert meira og betur en við höfum gert hingað til.