150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P):

Frú forseti. Þetta er það mál sem Píratar leggja inn sem Covid-frumvarp, tillögur til að bregðast við því sem er fyrirséð, að fólk fari að missa heimili sitt vegna þeirrar kreppu sem við stöndum frammi fyrir. Við Píratar viljum vera fyrri til, en vegna þess að við stöndum mögulega frammi fyrir stærstu kreppu í heila öld þarf strax að fara að vinna hér á Alþingi frumvarp um stöðvun nauðungarsalna. Það þarf að stöðva nauðungarsölur á heimilum fólks. Það þýðir eitt heimili hjá fólki, ef fólk á margar fasteignir er miðað við þá eign þar sem það heldur heimili. Þetta er til þess að vernda heimilin í landinu. Margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa falist í því að vernda fyrirtækin. Sumar aðgerðir hafa falist í því að styrkja fjárhagslega stöðu barna með barnabótum og slíku. Aðrar aðgerðir hafa falist í því að vernda ráðningarsamband og þar af leiðandi atvinnu fólks. Nú er kominn tími til að við förum að huga að því að vernda heimilin.

Í síðustu kreppu, eftir bankahrunið 2008, lögðu stjórnvöld fram frumvarp og samþykktu sem bannar nauðungarsölu á heimili fólks. Síðasta frumvarp af þeim toga var lagt fram af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, og fjallaði það um nákvæmlega það sama og þetta frumvarp, en eins og kemur fram í greinargerðinni byggir þetta mál nákvæmlega á því máli. Það eru þar af leiðandi fordæmi fyrir þessu. Þetta skref hefur verið stigið við þessar kringumstæður. Margir munu kannski segja: Já, en við erum ekki komin þangað í dag. Það er ekki nauðsynlegt að stöðva nauðungarsölur í dag. Því viljum við svara: Þetta frumvarp er komið fram. Nú er ég að mæla fyrir því. Það þýðir að það fer í vinnslu nefndar hér á þinginu. Þá væri ráðlegt — ég veit að Hagsmunasamtök heimilanna eru búin að senda inn umsögn — að fólk fari að senda inn umsagnir þannig að Alþingi og nefndin sem vinnur málið verði í startholunum, verði tilbúin, verði komin með umsagnir, verði farin að horfa til sviðsmynda, hvenær nauðsynlegt og fyllilega réttlætanlegt verði, samkvæmt stjórnarskránni, eignarréttinum, eins og í síðasta hruni, að klára þetta.

Ég vísa málinu til nefndarinnar og ég bið einstaklinga og samtök í þessu samfélagi, sem er umhugað um heimilin, að senda umsagnir til Alþingis. Ef ég má spyrja, forseti: Hvernig eru umsóknir sendar til Alþingis? Er það ekki nefndasvið@althingi.is? (Gripið fram í: Jú.) Þangað er hægt að senda umsagnir um málið, þetta er mál 762 og fjallar um breytingu á lögum um nauðungarsölu, eða frestun nauðungarsölu. Já, þetta er bara það einfalt. Það er kominn tími til að Alþingi vinni að því markvisst að koma heimilunum í skjól.