150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

nauðungarsala.

762. mál
[17:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við erum öll í þessu saman. Þetta segir hæstv. forsætisráðherra okkur, þetta segir hæstv. ríkisstjórn okkur en samt sem áður setur hún af stað frumvarp sem átti að auðvelda nauðungarsölur, sem átti að gera nauðungarsölur einfaldari á tímum kórónuveirunnar. Sem betur fer náðu þær áætlanir ekki fram að ganga á þessu þingi, en eftir sem áður viljum við koma fjölskyldum og heimilum landsins í skjól. Píratar leggja því til að ekki fari fram nauðungarsölur á heimilum fólks meðan á þessum heimsfaraldri stendur. Þetta finnst mér vera lágmarksviðleitni þessa þings til að tryggja öryggi fólks heima hjá sér á þessum tímum. Það gerist ekki mikilvægara.

Virðulegur forseti. Við höfum séð það í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til og í þeim umræðum og meðferð mála sem hefur verið í gangi hér út af viðbrögðum við Covid að hið gamalgróna sem segja má um stjórn og stjórnarandstöðu, að vissulega sé ekki sama hvaðan gott kemur, á enn þá við. Góðar tillögur frá stjórnarandstöðunni eru felldar miskunnarlaust, jafnvel til að taka þær upp aftur og gera að sínum eigin.

Nú leggjum við fram þetta frumvarp og ég skal segja það hér að það skiptir mig engu máli hvort ríkisstjórnin mun samþykkja þetta frumvarp eða taka það upp að eigin frumkvæði, enda ætti hún að vera löngu búin að því. Mér er nefnilega sama hvaðan gott kemur. Mér finnst mikilvægt að ríkisstjórnin staðfesti að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvort það missi heimili sitt akkúrat núna, mér finnst það mjög mikilvægt, þannig að hvort sem ríkisstjórnin brýtur odd af oflæti sínu og ákveður einu sinni að styðja gott mál frá stjórnarandstöðunni eða þá hún taki það bara til sín og afgreiði það sjálf, hvort heldur sem er, er þetta sjálfsögð krafa. Þetta er eðlileg krafa sem við mælum fyrir hér og nú. Ég legg til að henni verði komið til framkvæmda sem fyrst.