150. löggjafarþing — 101. fundur,  11. maí 2020.

útlendingar og atvinnuréttindi útlendinga.

717. mál
[20:08]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gerði eingöngu athugasemd við það að þetta mál væri keyrt dálítið fram, fannst mér, og gert að forgangsmáli ríkisstjórnarinnar. Mér þykir það skjóta svolítið skökku við á tímum þegar kallað er eftir samvinnu og samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu þegar vitað er að þetta mál er svo umdeilt sem raun ber vitni og umræður hér í þingsal hafa borið því vitni.

Hæstv. ráðherra talaði um að fólk geti fengið jákvæða niðurstöðu mjög hratt með forgangskerfi en manni virðist að stefnt sé að því að fólk geti líka fengið neikvæða niðurstöðu mjög hratt, fólki sé vísað úr landi án þess að mál þess séu nægjanlega skoðuð. Þetta finnst manni áhyggjuefni og það er þessi tegund af skilvirkni, svo ég komi enn einu sinni að því orði, sem ég óttast, þ.e. ópersónuleg, ómannúðleg skilvirkni sem afgreiðir málin bara snarlega með vísanir í lög án þess að aðstæður hvers og eins séu skoðaðar af nægilegri sanngirni.

Ég ætla ekki, þrátt fyrir ósk hæstv. ráðherra þar um, að fara að umbylta kerfinu á íslenskum vinnumarkaði og hvernig fólk fær hér atvinnuleyfi. Það er stærra mál en svo að það verði úrskurðað um það hér á fimm, fjórum, þremur, tveimur sekúndum.