150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Sá glæsilegi árangur í baráttunni við Covid-19, að engin smit greinist í samfélaginu hér heima fleiri daga í senn en ekki, er mikill léttir fyrir okkur Íslendinga. Þær aðgerðir sem ráðist var í undir forystu þríeykisins hafa borið árangur sem vakið hefur athygli víða um heim. En einangrun og atvinnuleysi sem m.a. fylgir þeim aðgerðum veldur vanlíðan og efnahagslegum áhyggjum á mörgum heimilum, eðlilega. Fréttir berast af aukinni neyslu áfengis og annarra vímuefna sem og auknu heimilisofbeldi og þá eru börn oftast óvarin og varnarlaus. Við þessar aðstæður er aðgengi einstaklinga til að leita sér hjálpar nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr. Ein besta forvörn fyrir börn sem horfa upp á foreldri sitt stjórnlaust af neyslu hugbreytandi efna og leggja þess vegna heimilið í rúst, er að sjá viðkomandi leita sér hjálpar og breyta um lífsstíl. En þá þarf hjálpin að vera aðgengileg.

Miðflokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem heilbrigðisráðherra er falið að skipa starfshóp sem geri aðgerðaáætlun um að bæta aðgengi einstaklinga í fíknivanda að meðferðarúrræðum sem í boði eru á Sjúkrahúsinu Vogi. Þar hafa um árabil verið 500–600 manns á biðlista. Fjárframlög ríkisins duga ekki til að halda lágmarksþjónustu á Sjúkrahúsinu Vogi og hafa félagar SÁÁ reynt að brúa bilið með t.d. álfasölunni sem landsþekkt er orðin. Vegna Covid-19 ástandsins hefur verið brugðið á það ráð að vera með álfasöluna í rafrænu formi og virðist ganga vel. Meira að segja hafa formenn stjórnmálaflokka samþykkt að gerast álfar og er orðin keppni um hver selst best. Ég skora á alla sem vilja styðja gott, þarft og brýnt málefni að kaupa álf (Forseti hringir.) því að fíkn er sjúkdómur sem fer ekki í manngreinarálit frekar en Covid-19 faraldurinn.