150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Birgir Þórarinsson bendir á. Það eru auðvitað miklu fleiri rekstraraðilar, lögaðilar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir mjög miklum búsifjum vegna þessa faraldurs, ekki bara veitingastaðir og ekki bara þeir sem samkvæmt ákvörðun sóttvarnayfirvalda urðu að loka. Það eru miklu fleiri sem hafa orðið fyrir því. Við erum hins vegar hér eingöngu að koma til móts við þá sem var gert skylt að loka. Það er afmörkunin sem við höfum. Það er hins vegar auðvitað hægt að ræða það, og mér finnst það sanngjörn ábending frá hv. þingmanni, hvort ekki komi til greina að aðrir njóti einhvers styrks eða stuðnings við þessar aðstæður. En þá spyr ég: Hvar ætlum við að afmarkað það? Það getur ekki bara verið bundið við veitingastaði vegna þess að það eru fjöldamörg önnur fyrirtæki sem hafa orðið fyrir alveg gríðarlegum búsifjum. Að vísu er ýmislegt sem bendir til þess að starfsemi efnahagslífsins sé aðeins að fara að komast aftur í gang og vonandi er bjartara yfir. En það má þó benda á að ýmsir veitingastaðir, vegna þess að veitingamenn eru mjög snjallir, þeir björguðu sér nefnilega margir, byrjuðu að senda okkur matinn heim. Ég hygg að þeir hafi náð a.m.k. að vinna að hluta til upp það tekjutap sem þeir urðu fyrir. En þetta er rétt ábending, hv. þingmaður. Vandi okkar er sá að við erum eingöngu að koma til móts við þá sem var gert skylt samkvæmt ákvörðun sóttvarnayfirvalda og heilbrigðisráðherra, stjórnvalda, að loka starfsemi sinni. En það eru fleiri aðilar heldur en bara t.d. veitingahús sem hafa orðið fyrir alveg gríðarlegum skakkaföllum.