150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[17:55]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að þakka fyrir að fá að veita andsvar þótt hv. framsögumaður hafi verið í sama flokki og ég. (BÁ: Hafi verið?) — Hafi hingað til verið í sama flokki og sú sem hér stendur, enda hljóta þessi andsvör að lúta að efni máls. Ég tel margt vera í mörgu í þessu máli sem ég þekki ágætlega. En mig langaði að spyrja hv. framsögumann út í atriði er varða skipan endurupptökudómstólsins, einkum tvö. Annars vegar hvernig henni verður háttað, eins og fjallað er um í 3. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að ráðherra skipi fimm dómara en þrír af þeim skuli vera embættisdómarar sem tilnefndir eru af hverju dómstigi. Var það rætt sérstaklega í nefndinni með hvaða hætti þetta val færi fram innan dómstólanna sjálfra? Í greinargerð um þetta ákvæði er m.a. vísað til tilmæla og ábendinga frá GRECO, sem er ríkjahópur Evrópuráðsins um spillingu, um að gagnsæi vanti við vinnubrögð dómstólanna þegar þeir tilnefna einstaklinga af sinni hálfu í alls kyns nefndir og ráð, en þó sérstaklega dómstóla eins og gerðardóma.

Hins vegar langaði mig að vita hvort orðið hefði einhver umræða í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um það fyrirkomulag að bætt sé við öðrum tveimur dómendum, utanaðkomandi, sem sækja munu um stöðurnar sem yrðu auglýstar, og það yrði aukastarf. (Forseti hringir.) Var rætt eitthvað um mögulegar vanhæfisástæður slíkra einstaklinga?