150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[18:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Segja má að sú tillaga sem birtist í þessu frumvarpi um skipan endurupptökudómsins sé ákveðin málamiðlun. Við höfum áður séð, bæði í þinginu og í umræðu, aðrar útgáfur af því hvernig dómurinn ætti að vera skipaður. Þar hafa togast á sjónarmið annars vegar um að það væru embættisdómarar sem skipuðu dóminn og hins vegar utanaðkomandi. Sumir gestir nefndarinnar hafa t.d. haldið því fram að eðlilegt væri að jafnvel allir dómarar í endurupptökudómi væru utanaðkomandi. Meiri hluti nefndarinnar hefur ekki fallist á þau sjónarmið heldur er hann þeirrar skoðunar að eins og frumvarpið er sett fram sé rétt að fara ákveðinn milliveg í þessu. Gert er ráð fyrir því að í hverjum dómi sitji þrír dómendur, einn úr hópi embættisdómara og tveir úr hópi sérstaklega siðaðra dómara í endurupptökudómstól. Það er ákveðin málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða, annars vegar um að reynsla úr dómskerfi nýtist í þessu og hins vegar að utanaðkomandi, þ.e. þeir sem ekki eru fastir og æviskipaðir dómarar, komi þarna að.

Varðandi vanhæfisástæður held ég að ekki sé ástæða til að ætla að (Forseti hringir.) stór hluti lögfræðingastéttarinnar útilokist sjálfkrafa frá þessu, en vissulega skapar það ákveðinn vanda þegar finna þarf tvo dómendur í dóminn (Forseti hringir.) sem fullnægja þessum hæfnisskilyrðum og eru ekki líklegir til að verða vanhæfir í fjölda mála.