150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:08]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég er afskaplega hissa á hvernig meiri hlutinn greiðir atkvæði um þessa sjálfsögðu tillögu. Ég gat um það sérstaklega í ræðu í gær að allar tillögur stjórnarandstöðu varðandi fjáraukann hefðu verið felldar. Ég skil hreint út sagt ekki af hverju við getum ekki sameinast um þessa tillögu af öllum tillögum, um að fyrirtæki sem njóta góðs af almannafé, skattfé almennings, hafi ekki rætur í skattaskjólum. Það er ríkt tilefni fyrir þessari breytingu. Ég minni þingmenn á Panama-skjölin þar sem Íslendingar áttu heimsmet þegar kom að fulltrúum í þeim skjölum sem þar láku. Gleymum ekki að þar var um að ræða eina lögfræðistofu í einu landi.

Það er ríkt tilefni til að girða vel fyrir og ég vona svo sannarlega að kjósendur ykkar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar átti sig á því hvernig þið greiðið atkvæði hér í dag. Þessi atkvæðagreiðsla skiptir máli og það er með ólíkindum að þið treystið ykkur ekki til að styðja þessa breytingartillögu Oddnýjar Harðardóttur.