150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[19:44]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um fjarskipti. Gildandi lög eru komin nokkuð til ára sinna og þarfnast endurskoðunar þar sem framfarir í fjarskiptatækni og -þjónustu eru mjög örar um þessar mundir. Meginmarkmið frumvarpsins er að samræma landsrétt samevrópsku fjarskiptaregluverki og tryggja aðgengileg, greið, hagkvæm, skilvirk og örugg fjarskipti hér á landi. Enn fremur er markmiðið að auka vernd og valmöguleika neytenda og stuðla að virkri samkeppni, hagkvæmum fjárfestingum og nýsköpun á fjarskiptamarkaði.

Frumvarpið byggir á efnisákvæðum EECC-tilskipunar ESB frá desember 2018 um setningu evrópskra reglna um fjarskipti sem stundum er vísað til sem „Kóðans“. Um er að ræða nýja grunngerð er leysir af hólmi fjórar eldri Evróputilskipanir sem gildandi íslensk fjarskiptalög byggja einkum á.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að lögfest verði heimild til að innleiða svokallaða BEREC-reglugerð ESB frá desember 2018. Hún snýst um evrópskan hóp eftirlitsaðila á sviði fjarskipta og skrifstofu honum til stuðnings. Hópurinn er ráðgefandi og stefnumótandi samstarfsvettvangur sem ætlað er að stuðla að samræmdri innleiðingu og framkvæmd samevrópsks regluverks á fjarskiptamarkaði, svo sem með útgáfu leiðbeininga og með ráðgjöf.

Samhliða undirbúningi frumvarpsins sem ég mæli fyrir hér í dag hefur teymi sérfræðinga samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, utanríkisráðuneytis og Póst- og fjarskiptastofnunar unnið að upptöku fjarskiptapakkans í EES-samninginn. Yfirstandandi er samráðsferli við Alþingi og hillir undir farsæla úrlausn samningaviðræðna við ESB um aðlögun vegna upptökunnar í samninginn.

Heildstæð drög að frumvarpi til laga um fjarskipti voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 9. desember 2019 og var opið fyrir umsagnir til 9. janúar 2020. 14 umsagnir bárust og var m.a. tekið mið af þeim við lokafrágang frumvarpsins. Sumarið 2019 höfðu áform um endurskoðun löggjafar um fjarskipti verið birt í samráðsgáttinni til umsagnar.

Það frumvarp sem hér er mælt fyrir er mikið að vöxtum og á köflum tæknilegt. Því mun ég stikla á stóru og aðeins nefna helstu breytingar og nýmæli. Fyrst vil ég nefna að efnisákvæði er varða álagningu kvaða eru meiri að umfangi en í gildandi fjarskiptalögum, en mörg þeirra fela í reynd í sér einföldun og er ætlað að draga úr fjölda álagðra kvaða og flækjustigi við málsmeðferð. Mikilvægt nýmæli er að hvatt er til samstarfs markaðsaðila og til sameiginlegra fjárfestinga við uppbyggingu innviða. Þeim sem byggja upp innviði er heitið tilteknum ívilnunum. Fyrirtækjum sem eingöngu selja aðgang að innviðum í heildsölu og starfa ekki á smásölustigi má segja að sé ívilnað á þann hátt að á slík fyrirtæki er ekki unnt að leggja eins íþyngjandi kvaðir og á lóðrétt samþætt fjarskiptafyrirtæki.

Einnig bætist við ný kvöð sem felst í því að Póst- og fjarskiptastofnun getur ef aðrar kvaðir hafa ekki reynst fullnægjandi kveðið á um aðskilnað rekstrareininga lóðrétt starfandi fyrirtækis sem hefur umtalsverðan markaðsstyrk. Þá skal fjarskiptafyrirtækjum með umtalsverðan markaðsstyrk gefast kostur á að leggja fram tilboð um skuldbindingar varðandi sameiginlegar fjárfestingar, aðskilnað starfsemi og almennar kvaðir. Slík tilboð geta leitt til þess að kvöðum verði létt af fyrirtækjunum að einhverju leyti.

Ýmislegt í þessu frumvarpi snýst um að einfalda stjórnsýslu og bæta hag neytenda og vil ég leggja áherslu á mikilvægi þessara þátta. Samkvæmt Kóðanum verða, svo dæmi sé tekið, heildsöluverð fyrir lúkningu símtala og SMS ákveðin fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið og því verður óþarft fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að framkvæma greiningu á heildsölumörkuðum fyrir lúkningu og taka ákvörðun um verð. Það mun einfalda stjórnsýslu á þessu sviði verulega. Þessu tengt er vert að nefna að BEREC-reglugerðin kveður á um hámarkssmásöluverð á millilandasímtölum og SMS innan Evrópska efnahagssvæðisins sem er viðbót við þegar gildandi ákvæði um hámarksverð fyrir reiki á EES-svæðinu. Sú breyting kann að valda markaðsaðilum einhverjum tekjumissi, en neytendur njóta á móti góðs af.

Annað atriði sem varðar neytendur snýst um að aukin áhersla verður á aðgengi neytenda að upplýsingum og samanburði á verði og gæðum fjarskiptaþjónustu svo og stöðlun viðskiptaskilmála. Lagt er til að hámarksbinditími samninga um fjarskiptaþjónustu við neytendur verði lengdur úr sex mánuðum í 12 mánuði og að réttarvernd neytenda verði m.a. aukin með lögfestingu sérákvæðis um pakkatilboð. Að auki er gert ráð fyrir að þjónustutegundum innan alþjónustu fækki frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir, neytendum skuli á viðráðanlegu verði tryggður aðgangur að gagnaflutningsþjónustu sem tryggir nothæfa netþjónustu og símaþjónustu með tilgreindum gæðum.

Í frumvarpinu eru ýmis ákvæði sem eru mikilvæg fyrir fjarskiptafyrirtækin. Þar vil ég nefna sérstaklega að gert er ráð fyrir fyrirsjáanleika til 20 ára varðandi gildistíma tíðniréttinda eða að lágmarki til 15 ára. Þá er með frumvarpinu lagt til að opnað verði á framsal og leigu tíðniheimilda milli markaðsaðila.

Síðast en ekki síst er markmið með frumvarpi þessu að stuðla að hagkvæmri uppbyggingu 5G-kerfa í Evrópu en þau verða grunnstoðin fyrir fjórðu iðnbyltinguna og hlutanetið. Við Íslendingar höfum verið meðal forysturíkja á síðustu árum í uppbyggingu fjarskiptainnviða og er fullur vilji til að svo verði áfram. Hagkvæm uppbygging og öryggi eru þeir lykilþættir sem stjórnvöld leggja nú áherslu á. 5G-kerfi verða miðtaugakerfi samfélags framtíðar og er í frumvarpinu tekið mið af þeim vaxandi kröfum sem mörg ríki telja sig nú knúin til að gera í því skyni að efla öryggi innviða sinna, þar á meðal 5G-farnetsþjónustu. Alþjóðlega er í þessu sambandi lögð áhersla á áhættugreiningu og að þjónustan megi ekki verða of háð einum birgi eða framleiðanda búnaðar og að gera þurfi sérstakar öryggiskröfur vegna afmarkaðra hluta fjarskiptakerfa.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um öryggishagsmuni vegna uppbyggingar farneta sem byggir á skýrslu og tillögum starfshóps þriggja ráðuneyta, þ.e. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Ákvæðið var útfært í samráði við utanríkisráðuneyti, dómsmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti og tekur m.a. mið af ráðleggingum nýlega útgefins rits á vegum Evrópusambandsins um hvernig standa beri að því að bæta öryggi 5G-farneta.

Á meðal skilgreindra verkefna í fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019–2023 er að innleiða nýtt heildarregluverk í fjarskiptum svo fljótt sem kostur er. Því er lagt til að gildistaka nýrra fjarskiptalaga verði í ársbyrjun 2021 og að uppfærðar meginefnisreglur á fjarskiptamarkaði öðlist þar með gildi á svipuðum tíma og á meginlandinu.

Ljóst má vera að heildarendurskoðun fjarskiptalöggjafar kallar á endurmat gildandi reglna og reglugerða og kallar í kjölfarið á setningu nýrra reglna og reglugerða.

Að lokum vil ég benda á að frumvarpið er brýnt og verði það samþykkt mun það stuðla að aukinni samkeppnishæfni Íslands, aukinni neytendavernd sem og framþróun á íslenskum fjarskiptamarkaði.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.