150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjarskipti.

775. mál
[19:59]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg klárt að alþjóðlega eru netöryggismál og veikleikar á þeim einhver stærsta ógnin sem við upplifum á okkar svæði af ýmsum ástæðum. Við þekkjum umræðuna um rangar fréttir þar sem menn eru að planta röngum upplýsingum. Við þekkjum árásir á fyrirtæki og viðkvæma hluta í okkar kerfum.

Ég vil hins vegar segja að við gerðum býsna mikið í þinginu í fyrra með því að samþykkja Nice-tilskipunina, netöryggisfrumvarpið, og þegar það tekur gildi 1. september nk. erum við komin með grundvöll fyrir að gera miklu meira. Við erum á sama tíma búin að vera að gera ýmislegt og bara í ráðuneytinu hjá okkur höfum við verið að efla þekkingu í samstarfi við tækniskóla í Noregi. Við fengum Oxford-háskóla til að gera skýrslu og þar eru ábendingar sem við höfum verið að vinna eftir í frumvarpinu. Í lögunum sem taka gildi 1. september erum við að efla netöryggissveitirnar. Við erum að efla Póst- og fjarskiptastofnun, erum að setja kröfur yfir á mikilvæg fyrirtæki þannig að við erum að gera mjög margt á þessu sviði. Þegar kemur að 5G þarf auðvitað að taka það inn í það sem Evrópusambandið gerði í lok janúar, að gefa út einhvers konar verkfærakistu sem svo er kölluð þar sem menn eru með fullt af verkefnum. Við munum að sjálfsögðu horfa til nágrannaríkja okkar, Norðurlandanna, en við erum hins vegar ekki með sömu stofnanir á sviði þjóðaröryggis- eða varnarmála eins og flestar aðrar sambærilegar þjóðir. Þess vegna erum við að setja þetta umhverfi inn í fjarskiptalögin hér en tökum þennan vinkil. Við munum að sjálfsögðu horfa á það hvernig nágrannaþjóðir okkar og samherjar í (Forseti hringir.) alþjóðastjórnmálum eru að vinna þetta.