150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

flugsamgöngur til og frá landinu.

[15:08]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sem mér fannst vera raunsætt mat á stöðunni og mér fannst það heiðarlegt sem kom hér fram. Eftir stendur að mér finnst skipta máli að ríkisstjórnin gefi út að það sé plan í gangi og mér fannst á orðum hæstv. fjármálaráðherra að svo væri. Ég vil alla vega að það sé þannig þegar við förum héðan út og ræðum við fólk að við segjum: Við erum að gera allt til að eyða óvissu. Ein óvissan er sú að það verði hugsanlega mjög erfiðar samgöngur, ekki bara núna, það er kannski eðlilegur tími núna að það hrikti í stoðum varðandi samgöngur, en til lengri tíma tryggjum við hér inn- og útflutning, eins og ég segi, og líka flutning fólks til og frá Íslandi. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við séum tilbúin þegar landið opnast, þegar við þurfum og ætlum að fara í meiri útflutning, að búið sé þá að tryggja allar leiðir. Ég vil brýna ríkisstjórnina að gera allt sem í hennar valdi stendur til að eyða óvissu. (Forseti hringir.) Það er verkefnið.