150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

samningur ríkisins við erlenda auglýsingastofu.

[15:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er víst þannig að sérstök valnefnd fór yfir öll tilboð sem bárust í þetta tiltekna verk. Nú er þetta verkefni ekki í mínu ráðuneyti en ég get hins vegar reynt að deila því sem ég þykist þekkja um þetta mál með þinginu og hv. þingmanni. Eins og málið blasir við mér var það þannig í öllum tilvikum innsendra erinda að menn áttu í samstarfi við erlenda aðila. Allir þeir sem buðu byggðu á samstarfi innlendra og erlendra aðila. Varðandi virðisaukaskattsmálið sérstaklega sem ég tek eftir að er í umræðunni er ekki rétt að í því felist einhvers konar samkeppnisröskun. Það er vegna þess að samkvæmt íslenskum lögum, virðisaukaskattslögum, er aðili sem ekki stundar atvinnustarfsemi hér á landi en óskar eftir þjónustu erlendra aðila, eins og t.d. auglýsingastofu í þessu tilviki, skyldugur til að skila virðisaukaskatti til ríkisins. Þetta er eins konar öfug virðisaukaskattsskylda. Ef um væri að ræða kaup af innlendri auglýsingastofu myndi hún skila virðisaukaskattinum til ríkissjóðs en í þessu tilviki er það Íslandsstofa, verkkaupinn sjálfur, sem hefur skyldu samkvæmt gildandi virðisaukaskattslögum til að skila í ríkissjóð virðisaukaskatti af þjónustu erlenda aðilans. Með þessu er einmitt komið í veg fyrir að þessi samkeppnislega röskun, sem ég skil mjög vel að menn hafi áhyggjur af, komi fram.

Það er síðan annað álitamál hvort menn hefðu eingöngu átt að bjóða eitthvert svona verk út hér innan lands. Ég hef efasemdir um að það hefði staðist aðrar skuldbindingar sem við höfum gengist undir. (Forseti hringir.) Ég bendi aftur á að samkvæmt mínum upplýsingum var ávallt um einhvers konar samstarf (Forseti hringir.) við erlenda aðila að ræða í þeim tilboðum sem bárust.