150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég varð var við þann misskilning í atkvæðaskýringu í gær að einhverjir þingmenn standa í þeirri trú að stuðningslánin séu fjármögnuð úr ríkissjóði. Það er ekki þannig. Það er ekki ríkissjóður sem fjármagnar þessi stuðningslán, það eru viðskiptabankarnir í gegnum eigin efnahagsreikning (Gripið fram í.) og hugsanlega líka með ákveðnum samningi við Seðlabankann, sem er þá opin lánalína. (OH: Engin ríkisábyrgð?) Það er auðvitað ríkisábyrgð, hv. þingmaður. Það er annað mál, en það er ekki verið að fjármagna lánið, það má ekki rugla þessu tvennu saman. Fyrirtæki sem er með starfsemi hér, alveg óháð því hvort eignarhaldið er í höndum Bandaríkjamanns, Breta eða Íslendings sem er með eitthvert annað eignarhaldsfélag á Tortólu, ber samkvæmt íslenskum lögum að greiða skatta og skyldur, þar með talið tekjuskatt, af starfsemi sem á sér stað á Íslandi. Það er með öðrum orðum ólöglegt að flytja hagnað frá Íslandi af starfseminni sem hér á sér stað. (Gripið fram í.)

Hitt er síðan annað mál, hv. þingmaður, að annað verkefni bíður hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem er kannski hluti af því að leysa þann vanda sem við er að glíma. Það kemur ekki við flutningi á hagnaði eða því að fela hagnað í einhverjum skattaskjólum, heldur er það það sem kallað er milliverðlagning, sem er stórt vandamál. En þingmenn virðast ekki hafa mikinn áhuga á því að fjalla um það vandamál þar sem milliverðlagning á sér stað þar sem vara eða þjónusta er seld til Íslands á allt of háu verði til þess að hagnaðurinn verði raunverulega eftir erlendis. Það er eitt af þeim verkefnum sem bíður okkar núna og er frumvarp fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og við skulum takast á við það mál.