150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni styðjum frumvarpið vegna þess að lokunastyrkirnir eru mjög mikilvægir fyrir þau fyrirtæki sem var gert að loka og stuðningslánin munu koma mörgum að gagni. Hins vegar gagnrýnum við að ekki skuli hafa verið settar neinar girðingar gegn þeim sem stunda hér skattsvik með skattaskjólum og aflandsfélögum. Með því er verið að opna fyrir að slíkir aðilar fái styrk og stuðning úr ríkissjóði þegar við eigum við þessa miklu erfiðleika að stríða, þegar heimsfaraldur gengur yfir.

Ég hef orðið vör við það, herra forseti, að stjórnarliðar greiddu atkvæði gegn tillögum okkar í Samfylkingunni sem settu þessar girðingar vegna þess að þeir héldu að skilyrðin væru inni í frumvarpinu. En það er rangt og það er alvarlegt ef stjórnarliðar þekkja ekki tekjuskattslögin (Forseti hringir.) nægilega vel og ef þeim hefur verið talin trú um að einhverjar girðingar séu í frumvarpinu fyrir þessa aðila. Þær eru engar svo það sé algjörlega á hreinu.