150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[16:24]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp eins og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar. Þó vil ég segja þetta: Við vorum hér fyrir nokkrum dögum að ræða um málefni útlendinga og ný lög sem til stendur að setja um þau. Mér finnst að þetta mál hér gefi okkur tilefni til að velta fyrir okkur hvort ekki sé komin ástæða til að við setjum nú lög um málefni aflendinga, að við tökum á þeim stórkostlega vanda og því samfélagslega meini sem skattsvik, skattundanskot og sniðganga eru og hvað þær heita allar saman, þessar leiðir til að komast hjá því að greiða sinn skerf til samfélagsins. Það þarf að taka á því meini okkur öllum til hagsbóta.