150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:20]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Farið var um víðan völl og kannski hefði verið gott fyrir hv. þingmann að leita til flokkssystur sinnar í hv. velferðarnefnd, hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, sem skrifar undir nefndarálitið með þessu máli. Hún hefði getað upplýst hv. þingmann um ýmislegt sem hann kom inn á hérna. Hann var t.d. gáttaður á því að ekki væri verið að fara yfir þær umsagnir sem hann las hér upp í löngu máli en þær eiga ekki við um málið sem við fjöllum um hér í dag. Ég get alla vega upplýst hv. þingmann um það að hv. velferðarnefnd leitaði sérstaklega til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og til ríkissaksóknara varðandi fyrri umsagnir sem bæði embættin sögðu að væru fallnar úr gildi af því að þær ættu ekki lengur við, af því að búið væri að breyta frumvarpinu það mikið. Þá var spurt hvort embættin vildu mögulega skila einhverju inn, t.d. athugasemdum, og í báðum tilvikum var því svarað neitandi, að frumvarpið sem nú væri komið inn tæki á öllum þeim álitamálum sem uppi hefðu verið. Vissulega hefði verið betra að koma með það inn í nefndarálitið en stundum er það ekki skrifað í nefndarálitið sem ekki er heldur frekar það sem er. En a.m.k. er það svona og ég vildi upplýsa það.

Aðeins varðandi úrræðin: Af hverju er ekki frekar verið að horfa til annarra úrræða eins og lækninga? Þá vil ég spyrja hv. þingmann út í það hvort hann telji að skaðaminnkunarúrræði útiloki úrræði sem snýr að einhvers konar lækningu á þessum sjúkdómi inni á heilbrigðisstofnunum eða meðferðarstofnunum. (Forseti hringir.) Lítur hv. þingmaður svo á að ef ein leið er farin (Forseti hringir.) útilokist önnur sjálfkrafa?