150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

ferðaþjónusta framtíðarinnar.

[15:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Sú sjálfsprottna byggðastefna sem hæstv. ráðherra talar um er einmitt svo mikilvæg, eins og við ræddum áðan, þar sem hafa sprottið upp lítil fjölskyldufyrirtæki og gert búsetu víða um land að allt öðrum kosti en kannski áður var. Slík ferðaþjónusta er oft og tíðum sú umhverfisvænasta sem við komumst í kynni við. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa það í huga og einmitt nýsköpun í ferðaþjónustunni. Þess vegna er ég mjög ánægður með að heyra á hæstv. ráðherra hversu mikla áherslu hún leggur á að nýta tímann núna til að velta fyrir okkur hvert ferðaþjónustan eigi að stefna og hvert við sem land eigum að stefna varðandi ferðaþjónustuna. Þar byggjum við á þeirri góðu vinnu sem unnin var í ferðastefnunni. Það er gríðarlega mikilvægt að horfa til þess að við höldum utan um það og hugsum eftir þessum grænu nýsköpunarleiðum um hvert við stefnum.