150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það dylst engum að umræðan hér er vegna alvarlegrar efnahagskreppu sem við, eins og aðrar þjóðir, höfum orðið fyrir barðinu á vegna veirubaráttunnar. Hér er þó hætta á að lægðin gæti jafnvel orðið enn dýpri en í mörgum öðrum löndum vegna þess að atvinnulíf okkar er ekki nógu fjölbreytt og ferðaþjónustan, sem verður fyrir mestu höggi, er töluvert stærri hluti af tekjum okkar en þekkist í nágrannalöndum okkar. Nú þegar eru tugþúsundir orðnar atvinnulausar eða á hlutabótum og þúsundir fyrirtækja vita ekkert hvort þau lifa eða deyja.

Frumvarpið sem við ræðum var fyrst kynnt á blaðamannafundi fyrir þremur vikum. Það er hugsað til þess að mæta vanda þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tekjutapi vegna faraldursins og sérstaklega í ferðaþjónustunni. Það er mjög gott að ríkisstjórnin vandi sig við að undirbúa slík frumvörp en þrjár vikur eru langur tími, sérstaklega þar sem fólk hefur réttmætar væntingar á þeim tíma sem þetta var kynnt á blaðamannafundum. En látum það nú vera.

Ég vil byrja á að taka það fram að ég skil tilganginn með frumvarpinu og er jákvæður gagnvart þörfinni á mörgu sem í því er, og það er alveg rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að það er nauðsynlegt að fyrirtæki geti endurskipulagt sig og skalað jafnvel niður þannig að þau eigi mikla viðspyrnu og geti hrokkið í gang með viðráðanlegum rekstrarkostnaði þegar kófinu lýkur. Það eru þó nokkur atriði sem við í Samfylkingunni viljum setja spurningarmerki við. Í fyrsta lagi finnst mér ótækt að bjóða upp á þessa leið núna án þess að ríkisstjórnin kynni samhliða stórtátak til þess að skapa ný störf. Íslendingar eru vinnusamir og það vill enginn sitja heima og fá borgað fyrir að gera ekki neitt. Við þurfum að hafa hraðari hendur, skapa ný og fjölbreytt störf sem koma í staðinn fyrir þau sem eru að tapast vegna þess að þau verða ekki öll til aftur í bráð, því miður. Þetta verður að gilda jafnt um einkafyrirtæki og fyrirtæki hjá hinu opinbera. Við verðum a.m.k. að sjá eitthvert plan.

Við í Samfylkingunni höfum verið með ýmsar tillögur og aðrir stjórnarandstöðuflokkar og einnig aðilar vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök. Það eru einfaldlega þannig aðstæður í samfélaginu núna að það ætti ekki að skipta máli hvaðan góðar hugmyndir koma. Ég vil því nota tækifærið til að hvetja ríkisstjórnina til að sýna göfuglyndi og þiggja samráð við alla þessa aðila.

Ráðherra verður tíðrætt um að verið sé að tryggja rétt launþega. Í því samhengi verður náttúrlega að gera þá kröfu að verið sé að tryggja hag launþega lengur en í þá þrjá mánuði sem þetta úrræði nær til. Þess vegna er brýnt atvinnuátak mjög mikilvægt. Í því ljósi og í öðru lagi er mér algerlega fyrirmunað að skilja þegar beinlínis á að hjálpa fyrirtækjum að segja upp fólki í hrönnum, að engar aðgerðir séu kynntar til að mæta tekjufalli þessara sömu einstaklinga og heimila sem uppsagnirnar munu hafa áhrif á eftir þrjá mánuði. Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er í dag 456.000 kr. og vara aðeins í þrjá mánuði þangað til fólk í atvinnuleit dettur á strípaðar bætur. Um er að ræða 289.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Þá er ég hræddur um að það verði býsna alvarleg staða á mörgum heimilum. Ég hef áhyggjur af því fólki. Þess vegna er það mjög alvarlegt að meiri hlutinn hafi fellt breytingartillögu Samfylkingarinnar um hóflegar hækkanir atvinnuleysisbóta. Ég held að með því hafi stjórnarþingmenn því miður dæmt margar fjölskyldur í landinu til mikilla erfiðleika og meiri erfiðleika en ella á næstu mánuðum. Ef við horfum fram á 10–15% langtímaatvinnuleysi eru það 20.000–30.000 manns. Mér fannst eiginlega furðulegt að heyra mjálm stjórnarliða sem komu hér upp í atkvæðaskýringu og voru að tala um að aðgerðirnar og hækkun atvinnuleysisbóta væru ekki tímabærar, ekki nauðsynlegar á þessu stigi. Þeir ættu kannski að tala við fólkið sem er að missa vinnuna með tilheyrandi tekjufalli en er með fastan kostnað á ýmsum sviðum, og velta því fyrir sér hvernig það borgar reikninga sína, borgar af húsinu sínu, bílnum sínum, tómstundir fyrir börnin og annað á næstu mánuðum. Í þessu samhengi, fyrir utan efnahagslegar afleiðingar sem þetta fólk mun verða fyrir, óttast ég líka um andlega líðan fólks, það sem mætir þessari óvissu. Þó svo að það fólk sem nú er á uppsagnarfresti detti ekki þar inn í haust — og það er kannski það sem stjórnarþingmenn meina með því að tala um að það sé ekki tímabært — myndu þessi skilaboð a.m.k. róa aðeins það fólk sem mun horfast í augu við mjög erfiða tíma í haust, ég tala nú ekki um í nóvember sem verður rosalega erfiða mánuður.

Að lokum verður náttúrlega líka, í samhengi við þessa umræðu um atvinnu, að ræða um nagandi óvissu allra námsmanna. Neyðin er komin núna, sagði talsmaður stúdenta, Jóna Þórey Pétursdóttir, í Silfrinu um helgina. Þá var hún auðvitað að meina að vorönnin væri búin en enn á eftir að auglýsa þessar þúsundir starfa. Og fjölmargir námsmenn, sem sumir þurfa að standa á eigin fótum, jafnvel ala upp börn og reka heimili, hafa ekki hugmynd um hvernig þeir eiga að framfleyta sér í sumar, hvað þá að koma sér í nám aftur.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni skiljum sem sagt vel þörfina fyrir róttækar aðgerðir og munum styðja aðgerðir í þágu kröftugs atvinnulífs til að hraða viðspyrnu fyrirtækja, en okkur virðist aftur á móti að ráðherra ríkisstjórnarinnar skorti algerlega skilning á hvaða skref þurfi að stíga til að tryggja velferð almennings í landinu. Við skulum halda fyrirtækjunum eins góðum og eins rekstrarhæfum og hægt er. Það er fyrirsjáanlegt að meiri hluti fyrirtækja í ferðaþjónustu þurfi a.m.k. að skala sig niður. En við hefðum viljað sjá meira fé í nýsköpun og við höfum líka bent á kosti þess að fullmanna núna opinbera þjónustu, sem ekki er vanþörf á til þess að gefa fólki sem er nú að fara á uppsagnarfrest fyrirheit um að það geti fengið vinnu í haust. En samkvæmt tölum frá BSRB hefur fjölgun opinberra starfsmanna numið rúmlega 600 stöðugildum á tíu ára tímabili. Það er 1,5%. En á sama tíma hefur landsmönnum fjölgað um 10,5%. Það er sem sagt eftir öllum kokkabókum hlutfallsleg lækkun. Í dag eru t.d. færri lögreglumenn en voru fyrir tíu árum. Það þekkja allir undirmönnun á mjög mörgum, mikilvægum heilbrigðisstofnunum. Ég er ekkert að halda því fram að fjölgun opinberra starfsmanna eða hátt hlutfall þeirra á atvinnumarkaði sé markmið í sjálfu sér. En það er augljóst, þegar horft er yfir sviðið, að hægt er að nýta þetta til að skapa vinnu fyrir fólk og það er ekki síður gott til að kítta upp í sprungurnar sem myndast hafa í velferðarkerfi okkar. Það eru einmitt þær stofnanir sem við höfum verið að hrósa, hver einasti þingmaður í öllum ræðum og viðtölum sem við höfum farið í, fyrir að hafa staðið sig frábærlega; sjúkrahúsin, öldrunarheimilin, skólarnir. Hvernig væri þá að búa þessum stofnunum þann umbúnað sem þeim ber fyrir okkur, til að skapa okkur öryggi frá vöggu til grafar? Það er a.m.k. ekki sóun umfram það sem ég held að flest okkar séu sammála um. Fram hefur komið í mörgum ræðum flestra þingmanna eiginlega allra stjórnmálaflokkanna að víða er pottur brotinn. Notum tækifærið núna, endilega.

Það kostar nefnilega að verja velferðina, hæstv. ráðherra, ekki síður en að það kostar að verja atvinnulífið í landinu. Talað er um að þetta frumvarp kosti ríkissjóð um 30 milljarða. Ég held að það sé sennilega hóflega reiknað. Hins vegar er samtímis verið að verja broti af því í velferðarþjónustu sem er svo sannarlega líka fjárfesting og nauðsyn.

Herra forseti. Við verðum bara að biðja ríkisstjórnina um að vanda betur til verka og horfa víðar og taka enn djarfari ákvarðanir. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra sem sagði, held ég, á fyrsta degi Covid-kreppunnar: Það þarf að gera meira en minna. Og í þessu tilfelli þarf að víkka sjóndeildarhringinn.

Í þriðja lagi finnst mér ríkisstjórnin gera allt of litlar kröfur um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Samkvæmt þessu frumvarpi mega forstjórar að vera á ofurlaunum. Samkvæmt frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra mega þeir það ekki. Ég spyr hvar samfellan sé á milli þessara frumvarpa og því svaraði ráðherra að einhverju leyti áðan þó að ég sé ekki sammála honum.

En við horfum líka á að fyrirtæki með ríkisaðstoð til uppsagna hafa mögulega heimildir til að nýta sér glufur sem finnast í kerfi okkar til að skila ekki öllum þeim peningum hingað til lands sem þau ættu að gera. Það er kannski alvarlegast þegar fyrirtæki nýta sér aflandsfélög, þegar aðilar sem greiða skatta erlendis eiga í fyrirtækjum hér og nýta sér ýmsar leiðir. Þegar menn lágmarka með öðrum orðum skattgreiðslur sínar hér á landi, þá er spurningin: Eiga þeir þá að njóta þessa stuðnings? Þótt ég hafi heyrt orð hæstv. ráðherra um að þetta væri fyrst og fremst fyrir launþega. Þá er þetta auðvitað líka fyrir fyrirtækin og til að verja hluthafana.

Hér er ég ekki eingöngu að tala um bein lögbrot, herra forseti, eins og sumir þingmenn stjórnarliða hafa ítrekað nefnt til að afvegaleiða þessa umræðu. Fyrirtæki geta nefnilega nýtt sér aðferðir með fullkomlega löglegum leiðum til að minnka skattgreiðslur hér á landi. En það sem er löglegt getur verið siðlaust, eins og Vilmundur Gylfason sagði á sínum tíma. Við vitum öll vel af því að það eru milljarðar króna í skattaskjólum, á lágskattasvæðum og ferðast eftir öðrum leiðum til að hindra að þeir komi allir í ríkiskassann, sem þarf svo nauðsynlega á því að halda. Þessir peningar hefðu væntanlega farið í að fjármagna það sem ég talaði um áðan; skólakerfið okkar, heilbrigðisþjónustuna og annað sem lýtur að vellíðan okkar og öryggi í gegnum ævina.

Og núna þegar við horfum upp á stærstu efnahagskreppu í 100 ár finnst mér ekki að við eigum að nota þá takmörkuðu fjármuni sem við búum yfir til að styrkja aðila sem ekki sýna fulla samfélagslega ábyrgð og hugsa kannski meira um eigið veski. Ég hlýt að spyrja aftur, af því að hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson spurði að því áðan: Hvernig stendur á því að það eru ekki sömu skilyrði á milli þessara tveggja leiða? Mér fannst ekki koma fullgilt svar við því.

Ég velti fyrir mér hvort það eigi að vera þannig að frumvörpin komi ófullburða í þingið og svo nái nefndirnar að lagfæra þau eitthvað. Svo taka þau gildi og síðan þarf alltaf aðra og þriðju umferð vegna þess að það er augljóst að nýja hlutabótaleiðin og skilyrðin þar eru viðbrögð við þeirri umræðu sem átt hefur sér stað núna í einn mánuð þar sem fólki ofbýður.

Herra forseti. Að lokum: Við erum búin að standa í þessum stormi í tvo til þrjá mánuði og þótt margt hafi verið ágætlega gert, sérstaklega þau verkefni sem verið hafa á höndum heilbrigðisyfirvalda, en látum það nú eiga sig, hafa hin pólitísku viðbrögð verið fálmkennd. Ég skal líka sjá í gegnum fingur mér varðandi það að ekki komi alltaf rétta svarið þegar á þarf að halda við algjörlega fordæmalausar aðstæður. En núna þegar við erum farin að átta okkur á þessu og sjá út úr kófinu hlýtur maður að kalla eftir meiri yfirsýn, skýrari aðgerðaáætlun og a.m.k. drögum að einhvers konar framtíðarstefnu sem lagt gæti grunninn að sanngjarnara, heilbrigðara og skynsamlegra samfélagi.