150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:49]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langaði að nýta mér að hv. þingmaður er bæði í velferðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, en þangað fer þetta frumvarp, og bæta mögulegum hugleiðingum í sarpinn, sérstaklega út frá umræðunni um hvort rétt sé að starfsfólk vinni uppsagnarfrestinn.

Mig langar að velta upp einni spurningu, ég veit að hún á ekki heima í vinnunni við þetta frumvarp í sjálfu sér, en er hluti af stóru myndinni í ljósi þess hversu margir eru núna að detta inn á atvinnuleysisbætur. Mjög líklega mun þetta frumvarp hafa þau áhrif að mun fleiri munu bætast við þar. Ég hef alla vega áhyggjur af því að svo verði, að það verði hópuppsagnir í mun meiri mæli. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort tímabært sé að hugsa núna til þess að afnema skilyrði um atvinnuleysisbætur, þ.e. gera þær skilyrðislausar í einhvern tíma. Væri það ekki til bóta fyrir hagkerfið að þótt einstaklingar væru með það öryggisnet sem atvinnuleysisbætur eru, væri þeim frjálst að hoppa t.d. á verkefni, prófa sig áfram með ný verkefni og nýja hluti án þess að missa atvinnuleysisbæturnar eða öryggisnet sitt? Væri það ekki hagkerfinu og samfélaginu til góðs að binda ekki hendur fólks með þeim skilyrðum sem eru um atvinnuleysisbætur? Bara upp á frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun á þessum mikilvæga tíma, þar sem við viljum virkja fólk og gefa því tækifæri til að prófa sig áfram í nýjum greinum og nýrri hugsun.