150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. En ég velti fyrir mér hvort það séu ekki ákveðin vonbrigði fyrir hv. þingmann og flokksfélaga hans að ekki skuli vera skilyrði í þessu frumvarpi eða öðrum um að þeir sem nýta sér skattaskjól fái ekki stuðning úr okkar sameiginlega sjóði sem við hin höfum samviskusamlega greitt skatta til. Þingmenn Vinstri grænna hafa komið í þennan ræðustól og sagt að það sé fullur vilji hjá ríkisstjórninni til að greiða fyrir slíku, það eigi að útiloka þá sem nýta sér skattaskjól. Við vitum alveg hvernig aflandsvæðing atvinnulífsins var hér fyrir hrun og engin ástæða til að ætla annað en að hún sé einhver í það minnsta, og raunveruleg dæmi þess efnis eru þekkt úr fjölmiðlum.

Hins vegar er í 4. lið 4. gr. ekkert nema skilyrði um að einhverjum skýrslum skuli skilað. En ekki er hægt að synja á neinum efnislegum forsendum þeim sem nýta sér skattaskjól, sem setja upp alls konar fléttur og græja og gera til þess að komast hjá því að greiða í ríkissjóð og láta okkur hin bera sinn hlut í velferðarkerfinu. Þeir geta fengið góðan ríkisstuðning með þessu úrræði og reyndar öðrum sem búið er að samþykkja hér á þingi. En þetta er svolítið öðruvísi úrræði vegna þess að það snýr meira að fyrirtækjunum en launþegunum, þannig að það væri kannski enn mikilvægara að setja slíkar skorður. Hvað vill hv. þingmaður segja um þetta?