150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Tekjujöfnuður á Íslandi er með því mesta sem gerist en það segir bara hálfa söguna því að misskipting getur birst með öðrum hætti. Mig langar að nefna tvö nýleg dæmi. Björgólfur Thor Björgólfsson birtist um helgina á hákarlalista Sunday Times með eignir sem eru metnar á 275 milljarða kr. Til samanburðar skiluðu erlendir ferðamenn nánast sömu upphæð inn í íslenskt samfélag á síðasta ári. Allir ferðamenn — einn maður.

Stærstu eigendur Samherja framseldu síðan í síðustu viku hlutabréf til barna sinna. Þetta er væntanlega stærsta persónulega eignatilfærslu Íslandssögunnar þar sem a.m.k. 60–70 milljarðar kr. færðust á milli kynslóða. Til samanburðar erfðu árið 2018 einstaklingar samtals 47 milljarða kr., lægri upphæð en hin fengu. Grunnurinn að Samherjaveldinu er nýting á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hvernig safnast svona stjarnfræðilegur auður? Hvernig er hann skattlagður?

Viðspyrnan fram undan verður að byggja á sanngirni og jöfnuði. Þessi tvö dæmi minna okkur á að hluti af vinnunni fram undan á að geta verið og þarf að vera auknar skatttekjur frá fólki og fyrirtækjum sem eru aflögufær. Hér þarf að innleiða aftur auðlegðarskatt þannig að fólk sem á hundruð milljóna og milljarða í hreina eign fái að leggja meira til samfélagsins. Við þurfum að styrkja fjármagnstekjuskatt, þrepaskipta honum og tengja við arðgreiðslur.

Erfðafjárskatti ættum við að umbylta. Honum þarf að þrepaskipta rækilega og setja ofurþrep á ofurarf frekar en flatan skatt í lágri prósentu. Risavaxnar eignatilfærslur á milli kynslóða viðhalda ójöfnuði og stéttaskiptingu.

Fjármálaráðherra vill stefna í átt að Íslandi 2.0. Hann þarf að muna þegar hann vinnur næsta fjárlagafrumvarp að í samfélaginu eru ótal tækifæri til að afla meiri tekna (Forseti hringir.) fyrir ríkissjóð af sanngirni áður en hann leggur til að skera niður í opinberu þjónustunni sem við stólum öll á.

Misskipting er ekki náttúrulögmál heldur mannanna verk og afrakstur ákvarðana sem margar hverjar eru teknar hér á þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)