Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

málefni aldraðra.

383. mál
[14:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir hans ágætu ræðu. Þetta er mikilvægt mál og ég ætla ekki að lengja umræðuna að neinu skapi. Hér er sem sagt verið að fjalla um breytingu á lögum um málefni aldraðra að í hverju sveitarfélagi, eða sveitarfélögum sem eiga samstarf um öldrunarmál og þjónustu við aldraða, skuli starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist öldungaráð þar sem fjallað er um þjónustu við aldraða og framkvæmd og þróun öldrunarmála. Það er hið besta mál. Í fjölmörgum sveitarfélögum í dag eru starfandi þessi öldungaráð. Ég hef átt fundi með slíkum ráðum og hefur margt fróðlegt komið þar fram og ánægjulegt að sitja fundi með því ágæta fólki sem situr í öldungaráði í hinum ýmsu sveitarfélögum. En hér er um að ræða að formlegur samráðsvettvangur sé um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan viðkomandi sveitarfélaga.

Það sem ég vildi koma inn á, ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það er í þessu máli, er að mér skilst að öldungaráðið eins og það er í dag hafi ekki stöðu fastanefndar á vegum sveitarfélaga og sé ekki skilgreint sem launuð nefnd, eftir því er ég best veit. Ég hefði talið að því ætti að breyta og þeir sem sætu í öldungaráði ættu að fá laun fyrir sín störf og að líta ætti á þetta sem fastanefnd á vegum sveitarfélaga. Ég hefði talið að það væri eðlilegt, bara í ljósi þess að fólk gefur sér tíma í þetta og sinnir þessu starfi samviskusamlega, og eigi þá að fá greitt fyrir það eins og aðrir sem sinna hinum ýmsu nefndum á vegum sveitarfélaganna.

En ég árétta að það er mikilvægt að sjálfsögðu að samfélagið líti á aldraða sem fullgilda meðlimi samfélagsins og virði þann mannauð sem í þeim býr. Stundum finnst manni skorta á það. Það á ekki að líta á eldri borgara eða aldraða sem bagga á samfélaginu heldur sem auðlind. Auk þess er mikilvægt að komið sé fram við þá sem einstaklinga en ekki sem einsleitan hóp. Viðhorf samfélagsins til aldraðra er með tvennum hætti, finnst mér. Ég hef alla vega upplifað að annars vegar eru þeir sem líta svo á að aldraðir eigi að vera gegnir þjóðfélagsþegnar, og svo eru hins vegar þeir sem líta svo á að þeir eigi að láta lítið fyrir sér fara. Mér finnst það vera frekar neikvætt viðhorf. Það er mikilvægt að skapa jákvætt viðhorf til þessa ágæta hóps sem skipar þessa kynslóð sem við eigum svo mikið að þakka, sem hefur reist okkur það velferðarkerfi sem við búum við í dag og hefur unnið alla sína ævi samviskusamlega og vill eiga áhyggjulaust ævikvöld.

Það er misjafnt eftir þjóðfélögum hversu mikla virðingu þau bera fyrir eldri borgurum. Eftir því sem ég hef upplifað finnst mér að við Íslendingar þurfum að taka okkur aðeins á. Ég starfaði um tíma í Miðausturlöndum og þar fannst mér mjög áhugavert að sjá hvernig samfélögin sem þar eru bera mikla virðingu fyrir eldra fólki. Margt hvað það varðar finnst mér að taka mætti til fyrirmyndar, mér finnst okkur Íslendinga stundum skorta svolítið á það. Sýnum eldra fólki þá virðingu sem það á skilið. Það er mikilvægt að því sé tryggð örugg og góð framfærsla.

Þar komum við að því sem margoft hefur verið rætt um, að bæta þarf almannatryggingakerfið og greiðslur til eldri borgara hvað þetta varðar og afnema skerðingar sem margsinnis hefur verið talað um. Við í Miðflokknum höfum talað sérstaklega fyrir því og flutt breytingartillögur við fjárlög og annað slíkt þar sem lagt er til að afnema þessar skerðingar, eins og t.d. að atvinnutekjur skerði ekki lífeyristekjur eldri borgara. Við höfum komið því á framfæri bæði í ræðu og riti og í breytingartillögum. Ég vil nefna sérstaklega hv. þm. Ólaf Ísleifsson sem hefur verið mjög ötull í þessum málaflokki og er það þakkarvert. Hann hefur skrifað góðar greinar og flutt tillögur í þessum efnum fyrir hönd okkar Miðflokksmanna. Auk þess er mikilvægt fyrir eldra fólk að hafa gott og öruggt heilbrigðiskerfi og tryggja aðgengi þess að heilsugæslu og læknisþjónustu. Dvalarheimili aldraðra skipta þá miklu máli, auk þess að þeir fái umönnun, aðbúnað og þjónustu til sjálfshjálpar við hæfi þegar heilsan brestur.

Aldraðir leggja mikla áherslu á sjálfræði um eigin hag og að sjálfsákvörðunarrétturinn sé á þeirra forsendum þegar kemur að vali á búsetu, starfslokum, félagsskap o.s.frv. Það er lykilatriði og mjög mikilvægt að aldraðir séu spurðir álits um mál sem þá snerta. Þar erum við einmitt komin að frumvarpinu um öldungaráð, að leitað sé ráðgjafar til þessa hóps hvað málefni þeirra varðar innan sveitarfélaganna, að tekið sé mark á þeim og hlustað sé á óskir þeirra. Hér á Alþingi eigum við að sjálfsögðu að gera það, einnig í sveitarstjórnum og á hinu opinbera sviði. Stundum veltir maður fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að starfandi væri einhvers konar umboðsmaður aldraðra.

Hér er talað um samráð og það lítur allt voðalega vel út á pappírunum, en svo er það spurning hversu gott samráðið verður þegar þar að kemur. Við þekkjum það bara í samskiptum við meiri hlutann og ríkisstjórnina að minni hlutinn hefur ekki fengið að koma nægilega vel að tillögum ríkisstjórnarinnar varðandi efnahagsaðgerðir vegna veirufaraldursins. Óskað hefur verið eftir samráði en þegar upp er staðið hefur það nú verið svolítið sýndarsamráð. Það má ekki vera svo í þessum málaflokki, alls ekki. Þetta verður að vera virkt samráð og mikilvægt að því verði fylgt eftir.

Við þekkjum að aldraðir vilja að sjálfsögðu að samfélagið virði þá að verðleikum í stað þess að líta á þá sem bagga á samfélaginu, sem ég nefndi áðan, og að samfélagið eigi að meta þá sem einstaklinga, nýta reynslu þeirra og virða mannauðinn sem í þeim býr. Einnig vilja þeir að þeir séu spurðir álits á málum sem snerta þá, hlustað á óskir þeirra og að tekið sé mark á þeim. Þetta er það sem ég legg áherslu á hér, að því verði fylgt eftir þegar frumvarpið verður að lögum, sem við í Miðflokknum styðjum að sjálfsögðu heils hugar, að haft verði virkt samráð. Það eiga allir að fá rými til að vera þeir sjálfir og að lifa með reisn og njóta virðingar samfélagsins. Það á sérstaklega við um eldri borgara. Ein leið til að auka þátttöku eldri borgara innan samfélagsins er að auðvelda þeim sem vilja að eiga lengri starfsævi án þess að skerða kjör þeirra.

Við höfum talað fyrir því í Miðflokknum að gefa eigi eldri borgurum færi á því að vinna — ja, segjum bara eins lengi og þeir vilja og heilsan leyfir. Það eigi bara að vera einstaklingsbundið val, en ekki að skikka menn til að láta af störfum við einhvern tiltekinn aldur.

En ég ætla ekki að hafa þetta lengra, herra forseti. Ég vildi koma aðeins inn á að mikilvægt er að staðið verði við það sem lagt er upp með í frumvarpinu, að þetta samráð verði virt og að hlustað verði á eldri borgara og þeir fái að vera virkir þátttakendur í ákvarðanatöku sem snertir málefni þeirra á sveitarstjórnarstiginu. Eins og ég sagði áðan hef ég setið fundi með öldungaráði. Þetta er góður félagsskapur og margt mjög fróðlegt sem þetta ágæta fólk hefur fram að færa. Við eigum svo sannarlega að hlusta á það og bera virðingu fyrir því.