Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:53]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál er hvorki mál Pírata, þetta er stjórnarfrumvarp ef ég man rétt, og ekki frelsismál ef menn halda það. Þetta er ekki frelsismál og enn síður um mannréttindi eins og sumir halda fram í umræðunni. Það er bara verið að ákveða að leyfa mönnum að neyta ólöglegra efna í sérstöku rými, efna sem enn eru ólögleg. Við getum talað um frelsismál ef við hættum að refsa fyrir þetta. (HHG: Af hverju ekki strax?) — Það má gera það mín vegna. Ég er bara að tala um að þetta er svo sérkennilegt. Ræða mín var ekkert um Pírata. Ræða mín var um mótsögnina (Gripið fram í.) hjá stuðningsmönnum þessa frumvarps. Ég ætla ekkert að styðja frumvarp (Gripið fram í: Þó að það sé stjórnarfrumvarp?) sem heimilar neyslu á efnum sem enn eru ólögleg. Ég ætla enn síður að kalla það frelsismál eða mannréttindamál. Þetta er einhver þvæla. En ég skal taka til máls um frumvarp Pírata um frelsi, um að hætta að refsa fólki fyrir að neyta ákveðinna efna. Fólk verður að bera ábyrgð á því sjálft, það er frelsismál. Það sama á við um áfengið. Það hefur aldrei verið sérstakur áhugi hjá Pírötum í því, (Gripið fram í: Ha?) þeir hafa kannski ekki verið á móti því en ég hef aldrei fundið neinn sérstakan áhuga á því að reka það mál, koma því í gegn. (Gripið fram í: Rangt.) Það hafa verið skiptar skoðanir um það. (Gripið fram í.) — Nei, ég er bara að tala um það að þetta mál er ekki frelsismál og ekki mannréttindamál. (Gripið fram í: Ég held að enginn hafi verið að segja það.)