150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

leiðsögumenn.

590. mál
[16:41]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég ítreka að við stefnum sífellt að auknum gæðum í íslenskri ferðaþjónustu. Skjalfest upplifun gesta okkar sýnir að íslensk ferðaþjónusta hefur á heildina litið staðið sig afburðavel í að uppfylla væntingar og fer fram úr þeim í mörgum tilvikum.

Eins og ég nefndi í fyrri umræðu finnst mér almennt séð nærtækara að gera auknar kröfur til fyrirtækjanna en sjálfra einstaklinganna og ég er þeirrar skoðunar að hægt sé að ná settum markmiðum. Mér heyrist við almennt deila því markmiði að vilja auka veg og vanda leiðsögumanna, auka gæði í íslenskri ferðaþjónustu og tryggja að öryggi þeirra sé tryggt og upplifunin góð. Þar gegna leiðsögumenn lykilhlutverki. Þegar ég var með hóp á Nýja-Sjálandi fannst mér þau leggja ofboðslega mikið upp úr því, bæði hvað varðar upplifun ferðamannanna en líka varðandi öryggi. Þau hafa lent í ýmsu þar í ferðaþjónustu sem hafði veruleg áhrif á uppbyggingu atvinnugreinarinnar þar í landi. Þar varð sú sýn ofan á að hægt væri að ná þessu fram með öðrum hætti og flokka eftir tegundum ferða og tegundum ferðaþjónustu. Ég held að það sé líklegra til árangurs en hitt.

Svo deilum við hv. þingmaður mögulega eitthvað um lögverndun heilt yfir, þ.e. mér finnst við almennt hafa gengið fulllangt þegar kemur að lögverndun. Ég veit að við á Íslandi skerum okkur úr samanborið við önnur ríki en verkefnið er að auka öryggi, gæði og fagmennsku íslenskrar ferðaþjónustu. Ég er sannfærð um að við getum fundið leið til að gera það og (Forseti hringir.) setja það inn í þá vinnu sem við erum að vinna varðandi aðgerðaáætlun á grunni stefnumótunarinnar.