150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

tófa og minkur.

545. mál
[17:32]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Þetta er um margt áhugaverð umræða. Ég veit að ráðherra hefur takmarkaðan tíma til svara í lok hennar en ég hef tvær einfaldar spurningar fyrir ráðherrann sem hugsanlega væri hægt að svara með jái eða neii. Sú fyrri er hvort hæstv. ráðherra telji almennt æskilegt að friða einn hlekk í lífkeðjunni. Hin spurningin er hvort hæstv. ráðherra gæti hugsað sér að friða mófugl og bjargfugl í friðlandinu á Hornströndum, hvort hann teldi vænlegt að taka út þær tvær tegundir sem væntanlega hafa flogið yfir höfðum landnámsmanna þegar þeir komu hingað á sínum tíma og hafa greinilega bæði skemmt landsmönnum og verið matarkista og annað í gegnum tíðina. Getur hann hugsað sér að friða þessar tvær tegundir í friðlandinu á Hornströndum?