150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

reynsla af breyttu skipulagi heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

572. mál
[18:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og hv. þingmanni fyrir viðbæturnar hér. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mjög, minna aðeins á að við höfum rætt í þessu sambandi um fjarlækningar, hversu mikilvægar þær gætu orðið í framhaldinu í þessu ferli öllu saman, því er nú sennilega ekki lokið og því lýkur aldrei. Eins höfum við rætt um bætta sjúkraflutninga. Eitt og annað hefur borið á góma, eins og sérstök sjúkraþyrla á Suðurlandi o.s.frv. Þarna hlýtur að vera eitt og annað sem þarf að skoða.

En mig langar samt að bæta við einni spurningu til hæstv. ráðherra. Talað var um það hér þegar við vorum að byrja þetta kjörtímabil, að búa þyrfti til einhvers konar þjónustukort fyrir landið, þ.e. að ljóst væri með ýmiss konar þjónustu, og þar á meðal heilbrigðisþjónustu fyrir hina og þessa landshluta og hina og þessa þéttbýlisstaði utan höfuðborgarsvæðisins, hvernig þeir íbúar sem þar væru gætu sótt sína þjónustu og hvað þessu korti líður. Mér þótti þetta mjög snjöll hugmynd, þannig að þetta er eina spurningin.

En ég ítreka enn mikilvægi fjarlækninga og sem allra greiðasta sjúkraflutninga þegar svona er komið.