150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

olíu- og eldsneytisdreifing.

573. mál
[19:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Olía er enn meginorkugjafi í samgöngum og sums staðar í raforkuframleiðslu, þá er það oftast varaafl en getur líka verið eina aflið sem fæst sem rafafl á stöðum eins og Grímsey. Vonandi breytist það með tíð og tíma með orkuskiptum hér á landi. Dreifing á olíu um landið er á fárra höndum, tveggja aðila eða svo, og það kom fyrir í vetur þegar mikil óveður gengu yfir að ýmiss konar vandræði urðu varðandi olíunotkun og olíubirgðir. Ég ætla ekki að tíunda það, það væri of langt mál, en hægt er að draga lærdóm af því sem ekki gekk vel þá. Sums staðar gekk þetta ágætlega. Ýmiss konar önnur náttúruvá gæti hindrað olíuflutninga og gert að verkum að við þurfum að hugsa vel fyrir olíubirgðum í landinu, dreifðum um landið. Þá er spurning hvort það skuli vera með öðrum hætti en í gegnum það sem við getum kallað markaðsstýringu, með þeim fyrirtækjum á markaði sem annast þetta og dreifa olíunni, hvort það þurfi jafnvel að vera með einhvers konar birgðir í umsjón eða eign ríkisins á mikilvægum stöðum o.s.frv. Þetta hef ég fært í búning sem hljóðar einhvern veginn svona:

Er olíudreifing og önnur eldsneytisdreifing á landi og sjó í samræmi við kröfur um flutningsöryggi, geymslu í héraði miðað við þarfir og þjóðaröryggisstefnu?

Hvaða lærdóma má draga af stöðu olíudreifingar og annarrar eldsneytisdreifingar í fárviðrinu í desember 2019?

Þriðja spurningin snýst um öryggi. Nú getur orðið mengun af olíunotkun og olíuslysum. Viðbrögðin snúa auðvitað að Umhverfisstofnun, olíufélögunum sjálfum, heilbrigðisnefndum í héraði o.s.frv., en ég er meira að spá í áhrif mengunarslysa á umhverfið. Það þarf einhverja eftirfylgni, fylgjast með því hvað gerist ef það verða meiri háttar olíuslys, og þá er spurning hvernig viðbrögðum er háttað. Er nægilega vel búið um það eða fylgst með þegar eitthvað slíkt hefur gerst?

Þetta eru frekar viðamiklar spurningar, ég geri mér grein fyrir því, en ég veit að hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er snaggaralegur maður.