150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

öryggismál og umferðarþjónusta í jarðgöngum.

656. mál
[20:23]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni af víðsýni og frjóum hug. Álitaefnin eru mörg og sú tilfinning situr eftir að kannski séu veikir hlekkir varðandi öryggisþætti í göngunum og að skerpa þurfi á þeim. Eins og ég nefndi áðan er ekki síður mikilvægt að þessi atriði séu í góðu lagi í þeim göngum þar sem minni umferð er, en það er mikil umferð um öll þau tíu göng sem við fjöllum hér um. Í minni göngunum er 700–1.000 bíla umferð á sólarhring og þaðan af meiri í Hvalfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum; 7.000, 8.000 eða 9.000 bílar fara um Hvalfjarðargöng á hverjum sólarhring og kannski 5.000 um Vaðlaheiðargöng.

En fólk getur orðið innlyksa í göngum og er þá mikilvægt að geta komið útvarpssendingum til fólks. Ég spyr ráðherra: Er unnið að því að samræma þetta með þeim hætti að hægt verði að ná útvarpi í öllum göngum á Íslandi þannig að þetta verði með kurt og pí? Getur hæstv. ráðherra svarað því hvert kostnaðarumfangið er? Hvað kostar að gera þessar úrbætur? Og í blálokin, á rauðu ljósi, getur ráðherra tæpt á því hvenær farið er að tala um tvíbreið göng? Hvað þarf umferðin að vera mikil? Hver eru öryggismörkin? Hvað segja nágrannaþjóðirnar, við hvað miða þær í þessum efnum?