150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fasteignafélagið Heimavellir.

583. mál
[20:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Í upphafi árs fengu 18 fjölskyldur, 60 manns, sem bjuggu í leiguhúsnæði í fjölbýlishúsi á Akranesi tilkynningu um að fasteignafélagið Heimavellir hygðist selja allar íbúðirnar í einum pakka. Í tilkynningunni frá fyrirtækinu kom fram að leigusamningar hefðu verið seldir með. Síðan kom í ljós að nýju eigendurnir höfðu ekki í hyggju að leigja þær áfram heldur selja á almennum markaði. Þessi flétta var harkalega gagnrýnd en íbúðirnar voru seldar langt undir fasteignamati og langt undir markaðsverði. Talsmenn leigjenda segja algjörlega forkastanlegt að Heimavellir hafi selt tvær blokkir á þessum kjörum án þess að bjóða leigjendum kaup á íbúðum með þeim afslætti. Þeir segja sömuleiðis að það sé gjörsamlega siðlaust að félag eins og Heimavellir, sem keypti þessar íbúðir m.a. af Íbúðalánasjóði á sínum tíma á sérstökum sérkjörum, skuli voga sér að skilja viðskiptavini sína eftir í algjörri óvissu en margir þeirra hafa leigt hjá Heimavöllum frá upphafi.

Svo vel vildi til fyrir kaupsýslumanninn að flestir leigusamningarnir sem Heimavellir gerðu við leigjendur íbúanna voru komnir á tíma og gat kaupandinn þá sagt þeim upp með skammarlega litlum fyrirvara. Fléttan gengur út á það að vísa á dyr öllum leigjendum eins fljótt og mögulegt er, setja íbúðirnar í sölu á almennum markaði og fá sem mest fyrir þær á sem skemmstum tíma. Eins og heimamenn á Skaganum benda á þá keypti fasteignafélagið Heimavellir téðar íbúðir af Íbúðalánasjóði á sérkjörum á sínum tíma, með þeim formerkjum að tryggja öflugan og tryggan leigumarkað í sveitarfélaginu. Nú örfáum árum síðar hafa Heimavellir pakkað saman og selt nánast allar eignir sem þeir fengu á sérkjörum frá Íbúðalánasjóði.

Ég spyr því hæstv. ráðherra þriggja spurninga af þessu tilefni, en vek á því athygli að þetta er nú kannski dæmisaga sem vert er að huga að í stærra samhengi:

Voru þær kvaðir settar á húsnæði sem fasteignafélagið Heimavellir seldi fyrir skömmu á Akranesi á þann veg að ekki mætti selja íbúðir húsnæðisins nema með samþykki Íbúðalánasjóðs? Ef svo er, veitti Íbúðalánasjóður þá heimild og hvers vegna? Hversu mörg dæmi eru um viðlíka fasteignaviðskipti Íbúðalánasjóð og fasteignafélaga?