150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fagháskólanám fyrir sjúkraliða.

619. mál
[21:10]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa gagnlegu og áhugaverðu fyrirspurn. Að auki vil ég þakka sjúkraliðum sérstaklega fyrir alla þá vinnu sem þeir hafa lagt á sig í kjölfarið á Covid-faraldrinum. Án þeirra hefði aldrei tekist svona vel til. Það er alveg ljóst að allt heilbrigðiskerfið stóð saman að því að vinna að því kraftaverki sem ég tel að hafi átt sér stað. Það er ekkert annað um málið að segja en það. Ég vildi hefja mál mitt á því að minnast á þetta og segja hvað störf þeirra skipta gríðarlega miklu máli.

Undanfarin fjögur ár hefur verið unnið að undirbúningi fagháskólanáms í samstarfi ráðuneytisins, háskólanna og framhaldsskólanna og aðila vinnumarkaðarins. Sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að mæta nemendafjölgun í háskólum næsta haust í kjölfar efnahagsáhrifa heimsfaraldurs verður boðið upp á styttri námsleiðir sem draga úr færnibili á vinnumarkaði og mæta þörfum atvinnulífsins fyrir menntað starfsfólk í undirmönnuðum starfsgreinum ásamt fleiri starfsgreinum. Sérstök áhersla verður á fagháskólanám í heilbrigðis- og tæknigreinum. Að auki leggjum við líka mikla áherslu á starfs-, verk- og iðnnám vegna þess að það er mikil eftirspurn eftir fólki með þá þekkingu.

Virðulegur forseti. Ég vil taka það fram að fagháskólanám tekur við að loknu námi í framhaldsskóla og er skipulagt í samstarfi við ýmsa fræðsluaðila. Náminu er ætlað að greiða nemendum með önnur lokapróf en stúdentspróf leið til náms sem leitt geti til námsgráðu á háskólastiginu. Náminu er enn fremur ætlað að hafa hliðsjón af síbreytilegum þörfum fyrirtækja og stofnana í atvinnulífinu fyrir nýsköpun og nýja þekkingu. Undirbúningur að fagháskólanámi felur m.a. í sér fyrirhugaða breytingu á lögum um háskóla og lögum um opinbera háskóla. Einnig verður haft til hliðsjónar af því að endurskoða reiknilíkan háskólans til að koma til móts við aukna áherslu á fagháskólanám.

Háskólinn á Akureyri hefur unnið að því í samráði við hagsmunaaðila að framhaldsnám verði í boði fyrir sjúkraliða innan námsbrautar í hjúkrunarfræði. Þar er um að ræða sérhæfða áfanga vegna geð- og öldrunarþjónustu. Vonast er til að námið geti nýst sjúkraliðum til frekara náms innan námsbrautar í hjúkrunarfræði en það er algerlega stefnt að því að í haust verði í boði fagháskólanám fyrir sjúkraliða. Þetta er einn af þeim áhersluþáttum sem sjúkraliðar hafa lagt áherslu á í kjarasamningum og það er mikill vilji í mínu ráðuneyti og hjá Háskólanum á Akureyri til þess að sjúkraliðar geti hafið fagháskólanám í haust.