150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

upplýsingaskylda stórra fyrirtækja.

[15:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vísa í tilkynningu frá ríkisstjórninni 19. nóvember 2019 þar sem fram kom að þessi vinna væri til viðbótar við fyrirhugað frumvarp á þingmálaskrá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga til að tryggja gagnsæi í upplýsingagjöf í reikningsskilum o.s.frv. Mér skildist að það væri annað frumvarp á leiðinni sem myndi taka sérstaklega utan um útgerðarfyrirtæki og fleiri fyrirtæki og á aðeins umfangsmeiri hátt en kannski er það misskilningur hjá mér, ég les bara úr tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Mig langar líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra út 4. liðinn í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem snýr að því að ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum í sjávarútvegi fyrir áramót, eins og hæstv. ráðherra vísaði í. Í því frumvarpi er þó ekki tekið á stærðarinnar ágreiningsmáli er varðar yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum en það snýr að því eignarhlutfalli sem eitt fyrirtæki getur átt í öðru án þess að teljast tengdur aðili. (Forseti hringir.) Samherji á 49,9% hlut í Síldarvinnslunni en telst samt sem áður ekki tengdur aðili. Það stendur ekki til að breyta því í þessari tillögu frá sjávarútvegsráðherra. (Forseti hringir.) Telur forsætisráðherra eðlilegt að eignarhlutfallið geti verið svona hátt án þess að viðkomandi teljist tengdur aðili?