150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

[15:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Að minnsta kosti sá ráðherra sem hér stendur er ekkert móðgaður út af því sem hann sagði í upphafi. Ég tek undir það að þessi málaflokkur er gríðarlega mikilvægur. Framtíðarviðurværi mannkyns var orðalag sem hv. þingmaður notaði og ég held að það eigi bara ágætlega við. Ég vil líka taka innilega undir með hv. þingmanni þegar hann talar um samtakamáttinn sem hér varð í Covid-faraldrinum og við erum enn að upplifa. Það er akkúrat sá hugsunarháttur sem við þurfum að taka með okkur inn í þau verkefni sem fram undan eru þegar kemur að loftslagsmálum. Ég hafði ánægju af því að hlusta á hv. þingmann fara með tímaáætlunina og segi svona til að byrja með að enn eru eftir áramót, enn er ekki komið sumar. En ég get sagt að við stefnum að því að koma þessu út í næsta mánuði og ég held að það verði alveg öruggt. Það er gríðarlega umfangsmikið það sem um er að ræða, sérstaklega vegna þess að ráðist var í að reikna mun nákvæmar hverju hver aðgerð skilar, a.m.k. þar sem það er hægt. Þetta fór í rýni í mars og við erum að vinna úr þeim athugasemdum. Að sjálfsögðu mun það hafa áhrif á niðurstöðuna sem kemur út úr þeirri rýni. Ég held að það verði alltaf einhver vafaatriði sem muni tengjast þeim breytingum sem eru að verða akkúrat núna út af Covid-faraldrinum. Það verður erfitt að ná fyllilega utan um það hvaða áhrif það mun í raun hafa á áætlunina í heild sinni, einfaldlega vegna þess að mjög mikil óvissa kemur fram vegna Covid varðandi ýmsa þætti sem snúa að efnahagsmálum eins og við þekkjum.

Ég kem betur að öðru sem hv. þingmaður spurði um í síðara svari.