150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:27]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni varðandi áhrifin. Auðvitað eru fyrirtækin í landinu með mjög mismikla afkastagetu og það er kannski þannig að ef fyrirtæki tekst vel að skrá sig til leiks og auglýsa einhvers konar tilboð þá geta áhrifin á fyrirtæki með litla afkastagetu orðið miklu meiri en á stór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu með mjög mikla afkastagetu. Þessi aðgerð gæti haft meiri áhrif á slík fyrirtæki. Ferðagjöfin nær til viðurkenndra safna og svo annarra safna, samanber síðasta töluliðinn í upptalningunni, og svo þeirra sem eru með leyfi varðandi gististaði og skemmtanahald og veitingastaði. Eins og þetta er lagt upp hér er ekki hægt að nota gjöfina til að borga inn á tónleika en ef tónleikarnir eru haldnir á einhverjum stað þar sem eitthvert annað skilyrði er uppfyllt þá er hægt að nýta gjöfina þar. (Forseti hringir.) En tónleikamiði er ekki hluti af þessu.