150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Í lok fyrri ræðu minnar nefndi ég atriði, sem ég hafði ætlað að klára í þeirri ræðu en entist ekki tíminn til, sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga við þetta mál og önnur sambærileg. Það er yfirlýst markmið þessa frumvarps að auka eftirspurn, auka neyslu. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er ég hlynntur frumvarpinu. En það er einkenni mjög áhugaverða tíma sem við lifum að nú berjumst við á hæl og hnakka við að auka neyslu og auka eftirspurn til þess að halda hjólum hagkerfisins gangandi. Það sem er svo skrýtið við það er að áður en Covid-19 heimsfaraldur kom upp á, lá fyrir það vandamál að við þyrftum helst að gera hið öfuga; draga úr neyslu, draga úr eftirspurn á ýmsan hátt. Ástæðan er loftslagsbreytingar. Við stöndum frammi fyrir ansi kaldhæðnislegum vanda. Við þurfum að gera hluti sem við ættum í raun og veru að leita leiða til að þurfa ekki að gera.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta núna, virðulegi forseti, er vegna þess að fyrr eða síðar linnir þessari krísu, vonandi fyrr en síðar, vonandi á þessu ári, kannski næsta. Þá taka við geigvænlegar efnahagsþrengingar að mínu mati, sögulegar efnahagsþrengingar, sem er engan veginn ljóst hvernig við ætlum að ná okkur upp úr. Á sama tíma er heimsmarkaðsverð á olíu í sögulegri lægð. Eitt það besta sem hefur komið fyrir baráttuna gegn loftslagsbreytingum að mínu mati var í kringum 2008, þegar olíuverð fór upp í hæstu hæðir. Það var mjög jákvætt að mínu mati. Það varð ofboðslega dýrt að kaupa bensín og alls konar hlutir urðu dýrir. Það hafði slæmar afleiðingar, vissulega slæmar hliðarafleiðingar, en hafði þau áhrif að vera algjör vítamínsprauta inn í alla nýja tækni, alla græna tækni og tækni til að berjast við loftslagsbreytingar og draga úr áhrifum þeirra.

Ég sé ekki fram á að hið sama gerist þegar þessari krísu linnir. Ég sé heldur ekki fram á það að við getum leyft okkur margar svona aðferðir til að ráða bug á vanda okkar hverju sinni vegna þess að þegar þessari krísu linnir þá tekur loftslagsvandinn aftur við, sem er yfirþyrmandi og hræðilegur svo ekki sé meira sagt. Leiðirnar sem við þurfum þá að fara að líta til, í stað þess að spyrja hvernig við getum aukið neyslu og aukið eftirspurn, eru hvernig við getum aukið hagsæld eða í það minnsta haldið hagsæld án þess að auka eftirspurn, án þess að auka hin svokölluðu efnahagslegu umsvif. Það er áskorunin, virðulegi forseti, vegna þess að hagfræðin tekur í rauninni ekki mjög vel á því. Hagfræðin gerir ráð fyrir því að peningar séu notaðir til að meta verðmæti hluta með einhverjum hætti. Það er ekki endilega ljóst hvort það sé einhver önnur leið möguleg yfir höfuð. Það er ástæðan fyrir því að hagfræðin gerir þetta. Ég er ekki að gera lítið úr hagfræðinni með því. Ég velti bara fyrir mér hvernig við ætlum að halda í hagsæld og halda í hið góða nútímalíf þegar Covid-19 faraldrinum linnir og við þurfum aftur að berjast við loftslagsbreytingar, án þess að við tökum til endurskoðunar hvað það er sem við köllum virði.

Dæmi: Ef manneskja heima hjá sér lagar tölvuna sína sjálf í staðinn fyrir að fara með hana í viðgerð, hefur sama verðmætaaukning átt sér stað. En með því að fara með hana í viðgerð tekur hún þátt í því að hjól atvinnulífsins snúist. Þetta er ekki gömul speki. Ég er ekki fyrsti maðurinn til að benda á þetta, það hefur oft verið gert. Þetta er ákveðin kaldhæðni, ákveðin skekkja að mínu mati, sem við höfum hingað til ekki þurft í sjálfu sér að takast mikið á við í efnahagslegum skilningi, þetta hefur aðallega verið bitbein milli svokallaðra vinstri manna og hægri manna. En ég vil meina að þetta sé spurningin sem við þurfum að takast á við þegar faraldrinum linnir. Þá munu svona frumvörp ekki duga til. Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um hlutina.

Að því sögðu ítreka ég stuðning minn við frumvarpið á þessari stundu því að ég er ekki með lausnina tilbúna. Mér fannst bara mikilvægt að halda þessu til haga af því að ég hef áhyggjur af því að loftslagsbreytingarnar kafni og verði að engu jafnvel þegar fram líða stundir og við komumst fram yfir þennan faraldur og, virðulegur forseti, það má ekki gerast.