150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað það varðar að málið hafi að mínu mati ekki verið nógu vel unnið þá met ég það út frá því hve mikið var eftir sem við hefðum getað rætt meira og hugsanlega lent betur en við gerðum. Fyrir mér þarf ekkert meira en það mat. Það skiptir engu máli hvenær málið var lagt fram eða hversu margir fundir voru haldnir. Auk þess sé ég ekki betur en að sjö nefndafundir hafi verið haldnir um það efnislega. Fyrsti fundurinn fer nú venjulega bara í að henda málum til umsagnar og allt í góðu með það. Mat mitt á því hvort málið þurfi umfjöllun er ekki byggt á neinu öðru en afstöðu minni þegar lagt var til að það yrði tekið út. Ég sá það voru atriði sem við hefðum getað rætt betur. Aðrir nefndarmenn voru ósammála, það var tekið út. Mín afstaða byggist bara á mínu hlutlæga mati á því. Sömuleiðis bendi ég á að lögð er til heildarendurskoðun að liðnum þremur árum. Það standa út af ýmis álitamál sem má alveg skoða betur og ég hygg að hv. meiri hluti sé sammála því þótt hann vilji kannski halda áfram með málið. Ég skil alveg metnaðinn og ber m.a.s. virðingu fyrir honum, ég er bara, með fullri virðingu, ósammála.

Hvað varðar 12. gr. og persónuverndina þá snýr það ekki að lagatæknilegu atriði að mati 1. minni hluta. Ég geri ekki athugasemdir við það að ákvæðið standist lög. Það er bara ekki alveg nóg fyrir mig. Ég vil að svona ákvæði séu sem skýrust og ég vil að þau séu sem fæstum vandkvæðum háð. Það að ríkisskattstjóri sjálfur eigi erfitt með þetta, sem á að láta upplýsingarnar af hendi, og að LÍN, sem verður þá Menntasjóður, eigi líka erfitt með það, segir mér nóg. Þetta er ekki lagatæknileg spurning. Spurningin er fyrir mér: Getum við bætt ákvæðið? Svar mitt er já og þess vegna er það lagt til í nefndaráliti 1. minni hluta að upplýsingarnar sem ríkisskattstjóra sé gert skylt að láta af hendi séu niðurnjörvaðar niður í það eitt sem þarf svo að það sé skýrt og ríkisskattstjóri sé ekki settur í þá stöðu að þurfa að meta það út frá lögum um Menntasjóð þegar hann fær beiðni um að veita upplýsingar.