150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[20:58]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Já, það er alveg rétt og er kannski kjarni málsins sem þetta snýst um sem hv. þingmaður bendir hér á um hvernig sjálfbærni lánahlutans verði varðveitt. Ég er ekki alveg sannfærður um að lánahlutinn verði fyrir alla muni að vera sjálfbær, það sé eitthvert trúaratriði. Það sem ég tala hér fyrir er miklu frekar að ríkissjóður, almannasjóður, setji aukið fjármagn í sjóðinn til þess að rækja það sem er meginhlutverk þessa sjóðs, og við hv. þingmaður erum alveg sammála um og ég held gjörvallur þingheimur, þ.e. að vera félagslegt jöfnunartæki, að vera það afl sem gerir fólki kleift að sækja sér menntun við hvaða aðstæður sem það svo sem býr við og hvaðan sem það kemur, að það eigi þess kost að sækja sér menntun til að geta orðið það af sjálfu sér sem í því býr. Til að rækja þetta hlutverk sitt, þetta félagslega jöfnunarhlutverk, getur sjóðurinn í rauninni ekki haft það meginmarkmið að lánahluti hans sé sjálfbær.