150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

skattlagning eignarhalds á kvóta.

[10:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hann fór dálítið víða yfir og fullyrti mjög um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til hinna ýmsu mála, t.d. að Sjálfstæðisflokkurinn hefði hafnað öllum hugmyndum um tímabindingu á samningum um nýtingu auðlindarinnar. Það er rangt. Hv. þingmanni á að vera fullkunnugt um að það slitnaði upp úr samkomulagi í nefnd sem þáverandi hv. þingmaður og ágætur félagi okkar til margra ára, Guðbjartur Hannesson heitinn, leiddi og var komin að niðurstöðu. Það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem sleit því samkomulagi. Þar var kveðið á um langtímasamninga um nýtingu þessarar auðlindar. Sömuleiðis var ákvæði í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um að taka það upp. Af einhverjum ástæðum hefur þetta ekki náð fram og það þarf að reyna að ná málamiðlun um svona umdeild atriði en það hefur ekki staðið á Sjálfstæðisflokknum alla vega að ræða það. Það þarf fleiri en einn til þegar það á að ná samningum.

Við getum alltaf deilt um það hvort gjaldtaka og meðferð þessara mála sé eðlileg og sanngjörn. Það verður dálítið persónubundið mat hverju sinni. Í mínum huga er enginn efi um að fiskimiðin eru sameign íslensku þjóðarinnar. Það er kveðið á um það í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun ítrekað talað fyrir því að taka upp auðlindaákvæði í stjórnarskrá þannig að það hefur ekkert staðið á okkur í þessari umræðu að taka hana. En því miður hefur stjórnmálaöflunum á þinginu ekki auðnast að ná samstöðu um það. Það er engum einum um að kenna í þeim efnum. Við berum öll sameiginlega ábyrgð á því.