150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:32]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst frekar dapurlegt að ráðherra sé ekki tilbúinn að taka undir að endurgreiðsluhlutfallið beri að hækka núna. Greinin hefur kallað eftir því. Það skiptir máli. Annars finnst mér þetta hluti af stærri mynd því að mér finnst skorta framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn. Það er afskaplega fróðlegt að vita til þess að 75% af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fari í að niðurgreiða uppsagnir á fólki og setja fólk á atvinnuleysisbætur.

Það er mjög athyglisvert að einungis 5% af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fara í nýsköpun. 5%. Það er nær ekkert. En með auknum stuðningi við nýsköpun væri einkaframtakið einmitt stutt og framtíðin mótuð. Í síðasta hruni setti Samfylkingin á fót græna og metnaðarfulla fjárfestingaráætlun þar sem áherslan var einmitt á hagkerfið, nýsköpun, hagvöxt og fjölbreytni. Þess vegna vil ég hvetja ráðherrann til góðra verkefna og setja meira í nýsköpun, listir, kvikmyndaiðnað og aðra þætti.

En þegar við skoðum tölurnar í þessum þremur fjáraukum sjáum við metnaðarleysi og skort (Forseti hringir.) á framtíðarsýn. Við sjáum enga áætlun um að búa til störf eða verja störf. Þetta er í mínum huga (Forseti hringir.) ríkisstjórn uppsagna og uppgjafar, ef eitthvað er.