150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:46]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ísland þarf fjárfestingaráætlun, metnaðarfulla áætlun þar sem við lítum til framtíðar. Í síðasta hruni setti ríkisstjórn Samfylkingarinnar fram sérstaka fjárfestingaráætlun fyrir Ísland. Áherslan var á grænt hagkerfi nýsköpunar, hagvaxtar og fjölbreytni í atvinnulífinu. Þessi áætlun var m.a. fjármögnuð af auðlindagjöldum. Nú þarf þjóðin að fá áætlun og aukinn arð af sínum eigin auðlindum. Ef ekki núna hvenær þá, herra forseti? Hins vegar bólar lítið á slíkri framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn. Þar virðist einn maður stjórna, formaður Sjálfstæðisflokksins, og restin klappar honum lof í lófa.

Förum yfir nokkur atriði sem sum eru kunnugleg. Eitt helsta úrræði ríkisstjórnarinnar núna er að niðurgreiða uppsagnir á fólki og setja fólk á atvinnuleysisbætur. Ef við skoðum töflu frá ríkisstjórninni sjálfri sjáum við að um 75% af aðgerðum ríkisstjórnarinnar fara í atvinnuleysisbætur og í svokallaða uppsagnarleið. Ríkisstjórnina skortir sýn hvað það varðar að búa til störf. Störfin skipta máli. Við þurfum að verja störf og búa til störf. Að sjálfsögðu þurfum við að hafa hér örlátt atvinnuleysistryggingakerfi o.s.frv. en við þurfum að hugsa róttækt og stórt. Ég vil rifja það upp þegar ég nefndi hér um daginn að við ættum að gera nákvæmlega eins og allar aðrar nágrannaþjóðir okkar eru að gera og það er að fjölga opinberum störfum. Við þurfum að gera hvort tveggja, svo að ég undirstriki það, að fjölga störfum í einkageiranum en líka hjá hinu opinbera; fjölga hjúkrunarfræðingum, lögreglumönnum, sjúkraliðum, vísindafólki o.s.frv. Þetta eru þjóðir að gera í kringum okkur. En formaður Sjálfstæðisflokksins brást hinn versti við og kallaði þetta hina verstu hugmynd sem hann hefði heyrt. Ég vil bara upplýsa um það að þetta er hugmynd sem Economist, AGS og Financial Times hafa öll nýverið sett fram. Hér þarf bæði að auka opinbera eftirspurn en líka að fjölga opinberum störfum, bæði til frambúðar og tímabundið.

Ég segi, herra forseti, í ljósi þess að aðrar þjóðir eru að gera þetta: Sem betur fer er Sjálfstæðisflokkurinn ekki við stjórnvölinn annars staðar en því miður er hann það hér. Þetta er afstaða þessa stóra flokks, þessa ágæta flokks, stærsta flokks landsins, til opinberra starfa. Ég er ekki að draga samfélagið inn í einhvern sósíalisma eða neitt slíkt, ég er að kalla eftir því að við búum til störf og bætum þjónustuna okkar um leið. Þetta er nákvæmlega sama leið og farin hefur verið í fyrri kreppum. Þetta er 100 ára gamalt debatt. Einn helsti hagfræðingur 20. aldarinnar, Keynes, benti á nákvæmlega þessa leið. Þess vegna er svo sorglegt að vegna kreddu Sjálfstæðisflokksins þá kemur þetta ekki til greina nema kannski að takmörkuðu leyti. Það er líka sorglegt að félagshyggjuflokkarnir tveir, eins og þeir kalla sig stundum, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir, láti þetta yfir sig ganga, sem ég skil ekki. Sjálfstæðisflokkurinn þarf jafn mikið á ykkur að halda og þið á þeim í þessari ríkisstjórn og ef eitthvað meira. Þið hafið það val að starfa með öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokkurinn hefur miklu færri valkosti þegar kemur að ríkisstjórn út af þeirri kreddufullu hugmyndafræði sem hann virðist aðhyllast.

Drögum aðra staðreynd fram: Ég hef sagt að í kreppu sé nýsköpun töfraorðið. Það orð finnst nánast ekki í orðabók þessarar ríkisstjórnar. Tökum aftur töfluna frá fjármálaráðuneytinu. Hve mikið fer í nýsköpun af aðgerðinni? Það eru 5%. 5% af öllum þessum aðgerðapökkum fara í nýsköpun. Það er nær ekki neitt. Við eigum að setja meira í nýsköpun. Ég veit að allir í þessum ræðustól hafa sagt að nýsköpun sé mikilvæg. Sýnum það þá í verki, setjum meira í nýsköpun. Við vitum ekkert hvert næsta Meniga eða Marel er. Veðjum á hugvitið, tækni, frumkvöðlaeðli Íslendinga, veðjum á einkaframtakið, sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ítrekað kallað eftir að þurfi til að lyfta okkur upp úr þessari kreppu. Stuðningur við nýsköpun er stuðningur við einkaframtakið. Því skil ég ekki af hverju ég og formaður Sjálfstæðisflokks erum ekki bandamenn í því að setja meira í nýsköpun. En ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa allir ítrekað fellt tillögur okkar um að setja meira í rannsóknir, meira í Tækniþróunarsjóð, meira í nýsköpun, sóknaráætlun landshluta og í tækniþróun. Með auknum stuðningi við nýsköpun værum við einmitt að búa í haginn sem við þurfum svo sannarlega að gera.

Kíkjum aðeins á fjáraukana tvo sem við erum búin að afgreiða. Við erum að tala um þriðja fjárauka. Hve mikið aukast ríkisútgjöldin í þeim tveimur fjáraukum sem búið er að afgreiða? Þau aukast um 4%, um 40 milljarða. Ef við tökum hér aftur í töflunni góðu flýtingu framkvæmda þá eru það um 18 milljarðar. Það er minna en 2% af því sem ríkissjóður hefur úr að spila, í flýtingu framkvæmda. Aftur: Þegar eftirspurnin hrynur á einkamarkaðnum á hið opinbera að stuðla að aukinni eftirspurn. Þannig virka fræðin. Ríkið getur mildað höggið og skapað eftirspurn á meðan einkageirinn er í sárum en 2% aukning ríkisútgjalda, það er allt og sumt. Í hvaða heimi er það nóg til að mæta dýpstu kreppu í 100 ár? Þegar eftirspurnin á einkamarkaði hrynur á hið opinbera að skapa eftirspurn á móti. Það styrkir atvinnulífið, styrkir einkaframtakið. Þetta er lærdómur sem fékkst fyrir 100 árum en virðist ekki hafa borist upp í Valhöll.

Förum aðeins lengra. Ríkisstjórnin hlustaði loks á hugmynd Samfylkingarinnar um að fjölga á listamannalaunum. En betur má ef duga skal. Hér held ég að við hefðum átt að setja enn meira. Það er betra að fólk vinni við sína list en að það fari á atvinnuleysisbætur. Þetta er svo augljós hugmynd sem ekki ætti að vera ágreiningur um. En ríkisstjórnarflokkarnir hafa hafnað þeirri tillögu að fjölga enn meira í hópi listamanna sem hafa, eins og allir vita, upplifað gríðarlegt tekjutap út af faraldrinum. Ég hef líka ítrekað kallað eftir því að við setjum meira í Kvikmyndasjóð og í endurgreiðslur þar. Ég gerði það í andsvari mínu við ráðherra. Það er hugmynd sem býr beinlínis til peninga vegna þess að þetta laðar verkefni að. Ég hef verið í góðu sambandi við fólk í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum. Það eru verkefni sem bíða eftir að koma til Íslands í sumar; ég er að tala um í sumar en endurgreiðsluhlutfallið skiptir víst máli. Ég ítreka að ríkissjóður þarf ekki að greiða krónu til baka fyrr en peningarnir eru komnir inn og það kemur miklu meira inn. Um leið og við fáum þessi verkefni til landsins þá skapast hér störf, umsvif og það skapast skatttekjur. Svo skapast list og menning. Það er svokölluð „win-win“-hugmynd að setja aukna fjármuni í þetta. Netflix, og þetta skiptir líka máli, gaf út þá yfirlýsingu að Ísland væri eitt af fáum ríkjum þar sem hægt væri að fara í verkefni í sumar. Þið getið ímyndað ykkur eftirspurnina eftir kvikmynda- og sjónvarpsefni eftir ár því að tökur hafa legið niðri um allan heim. Ég vil aftur í einlægni hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að hækka endurgreiðsluna og þá er ég að meina núna, ég er að meina eftir hádegi, liggur við. Þingið er bráðum að fara heim, sumarið er hafið. Það er eitt pennastrik fyrir ráðherrann að hækka endurgreiðsluna og hann mun alls ekki sjá eftir því og ríkiskassinn mun þaðan af síður sjá eftir því því að hann bólgnar af þeirri einföldu aðgerð að hækka endurgreiðsluna vegna sjónvarps- og kvikmyndagerðar á Íslandi. Þetta býr til peninga.

Ég vil draga fram nokkur önnur atriði. Ég hef gagnrýnt að þessir aðgerðapakkar, fjárauki eitt tvö og þrjú, séu of litlir. Ástandið er það grafalvarlegt og samkvæmt sviðsmyndum frá fjármálaráðuneytinu erum við að fara inn í mjög djúpa kreppu. Þess vegna eigum við að leyfa okkur að vera svolítið róttæk. Við eigum að leyfa okkur að skuldsetja okkur. Við eigum líka að taka góðan tíma í að niðurgreiða þær skuldir. Ólíkt síðasta hruni eru þær skuldir sem ríkissjóður þarf að ráðast í að stórum hluta í innlendum krónum. Það skiptir máli. Það verður ekki eins mikil pressa og áður á að niðurgreiða skuldir. Hér þurfum við að standa í lappirnar og verja þau kerfi sem við höfum byggt upp, hvort sem það er velferðarkerfið eða menntakerfið. Í síðasta hruni fórum við svokallaða blandaða leið. Það var reynt að hlífa velferðarkerfinu og menntakerfinu en ákveðnir skattar voru líka hækkaðir og auðlindagjöld voru hækkuð. Þetta er umræða sem við eigum eftir að taka og verður erfið, ekki síst fyrir Vinstri græna og Framsóknarflokkinn í þessu samstarfi. Hér kristallast munur á þessum flokkum, þetta eru ekki sömu flokkarnir. Hér þurfum við að standa í lappirnar, við sem viljum verja opinbera kerfið og þjónustuna gagnvart þeim sem reiða sig á opinbera þjónustu, hvort sem það eru eldri borgarar, öryrkjar, námsmenn, barnafólk o.s.frv. Það er slagur framtíðarinnar. Hvernig ætlum við að vinna niður þennan halla? Hvaða skattar verða hækkaðir? Hvaða skattar verða ekki hækkaðir? Mun ríkisstjórnin leggja í það að hækka auðlindagjöld?

Ég ætla að segja það úr þessum ræðustól: Við munum ekki skattleggja okkur upp úr kreppunni en við þurfum tekjur og við þurfum að hafa sanngjarnt skattkerfi. Við þurfum að hafa sanngjarnt skattkerfi sem dreifir byrðunum. Við höfum í dag fólk sem getur lagt meira af mörkum. 10% ríkustu Íslendinganna eiga 60% eignanna. Við erum að upplifa hér eina mestu tilfærslu verðmæta á milli kynslóða vegna kerfis sem við höfum byggt í sjávarútvegi. Við sjáum að hér er hægt að leggja meira af mörkum, m.a. í gegnum auðlindagjöld. Þetta er umræða sem við þurfum að taka. Ef ekki núna, hvenær þá?

En fyrst ég nefni sjávarútveginn væri hægt að setja ákveðna tölu í samhengi. Hinn svokallaði félagslegi pakki ríkisstjórnarinnar er lægri en sem nemur lækkun veiðileyfagjalds þessarar ríkisstjórnar á þessu kjörtímabili en veiðileyfagjöld hafa lækkað um meira en helming á kjörtímabilinu. Þetta sýnir svolítið viðhorfið, sýnir líka viðhorfið hvað þetta varðar að í síðustu viku var keyrð hér í gegn sérstök skattalækkun fyrir fyrirtæki sem kaupa stór skip. Ég er ekki að búa þetta til. Þetta var forgangsatriði ríkisstjórnarinnar, sem Vinstri græn og Framsókn létu yfir sig ganga, í miðjum heimsfaraldri, að lækka skatta, stimpilgjöldin, á fyrirtæki sem kaupa stór skip. Á sama tíma fannst þessari ríkisstjórn ekkert mál að fella tillögu þess efnis að námsmenn gætu fengið atvinnuleysisbætur þetta sumarið. En, herra forseti, námsmenn eru auðvitað ekki stórútgerðarmenn. Til að toppa þessa vitleysu hjá ríkisstjórnarflokkunum, sem ég vona að þjóðin sjái, felldu þessir flokkar tillögu hér á Alþingi um að hér væri tryggt að fyrirtæki sem væru með eignarhald í skattaskjóli nytu ekki opinbers stuðnings. Þetta var tillaga sem var lögð fram. Hún var felld. Af hverju ætli það sé? Kusu kjósendur VG og Framsóknar sína flokka með þetta í huga? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Ég hef sagt það hér áður að við í stjórnarandstöðunni höfum stutt tillögur ríkisstjórnarinnar. Við eigum að standa saman í svona neyðarástandi og við höfum gert það í stjórnarandstöðunni. En ég minni á að ríkisstjórnarflokkarnir hafa fellt hverja einustu tillögu, svo að segja, sem kemur frá stjórnarandstöðunni. Af hverju var ekki hægt að nálgast þessa krísu með aðeins opnari hætti, hlusta á flokka sem þó eru kosnir af 47% þjóðarinnar í staðinn fyrir að detta í hinn hefðbundna skotgrafahernað? Það var fullkominn óþarfi. Við erum pínulítið land sem þarf ekki að hugsa í svona rosalega flokkspólitískum línum. Það er fullkomlega óþarfi. Það er miklu meira sem sameinar okkur en sundrar okkur og sýnum við það ekki í verki, herra forseti?

Að lokum: Í síðasta hruni þurftu jafnaðarmenn að taka til eftir óstjórn Sjálfstæðismanna. Það verður án efa það sama upp á teningnum núna. Það er því nauðsynlegt að hér taki við stjórnmálaflokkar sem hafa sýn á uppbyggingu til framtíðar. Samfylkingin vill búa til störf en ekki tala þau niður eða bara niðurgreiða uppsagnir. Samfylkingin vill fjárfesta í nýsköpun og list í stað skattalækkana til stórútgerðarinnar og hugsanlegs stuðnings til skattaskjóla. Samfylkingin vill græna og metnaðarfulla fjárfestingaráætlun sem tekur til almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna.

Herra forseti. Nú er einmitt rétti tíminn fyrir slíkt.