150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:01]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það sem ég vil koma inn á hér í andsvari er það sem hv. þingmaður byrjaði sína ræðu á. Mér fannst gæta mótsagna í máli hv. þingmanns. Það sem snýr að því að meginþorri aðgerða fari til að mæta þessu, skulum við segja, tímabundna atvinnuleysi og verja störfin, er það ekki bara alveg eðlilegt miðað við þær aðstæður sem eru komnar upp? Mér fannst hv. þingmaður tala eins og það væri eitthvað annað og miklu meira sem ætti að vera að gera en að einbeita sér að þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp, að launafólk er að missa vinnuna. Það hlýtur að vera meginverkefnið að styðja við atvinnulífið og verja störf. Þá er ekki óeðlilegt að það speglist í umfangi aðgerða.

Ég velti því líka fyrir mér, af því að hv. þingmaður ræddi um allar þær tillögur sem minni hlutinn hefur komið með við úrvinnslu þeirra fjáraukalagafrumvarpa, þar sem við samþykkjum þær heimildir á bak við fjölmargar aðgerðir sem síðan birtast í öðrum frumvörpum, ef við tökum síðasta fjárauka sem var meira og minna sérstaklega félagslegar aðgerðir, talandi um félagshyggjuflokka þá eru þær breytingartillögur áttfaldar til viðbótar við þær aðgerðir. Ég velti því fyrir mér af því að í nýlegum pappír frá OECD eru stjórnvöld hvött til að fara hratt til baka þegar við komum okkur (Forseti hringir.) út úr þessu ástandi í sjálfbærnifarveg — en við erum komin fram úr gildandi fjárlögum.