150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:18]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað sagt að hann vilji frekar gera meira en minna. Hvernig stendur á því að námsmenn eru ekki vitni að því eða sammála þeirri staðhæfingu? Hvernig stendur á því að sveitarfélögin eru ekki sammála þeirri staðhæfingu? Hvernig stendur á því að þeir sem eru úti í feltinu, hvort sem það er verkalýðshreyfingin eða Samtök iðnaðarins, eru ekki sammála þessari fullyrðingu? Gott og vel. Hæstv. ráðherra þarf ekkert að taka mark á stjórnarandstöðuþingmanninum, Ágústi Ólafi, en ég er í fjárlaganefnd Alþingis og sé þær umsagnir sem við fáum við fjárauka eitt og tvö og við fjárfestingarátak og nú þriðja fjáraukann. Það er ítrekað verið að benda okkur á að hægt sé að gera betur. Ég er ekki að tala út í loftið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kíkja á þær umsagnir sem við fáum frá þessum aðilum. Þeir benda á það sama og ég, að hér er einfaldlega ekki gert nóg. Hér er ekki verið að gera meira heldur en minna.

Stundum finnst mér eins og við í fjárlaganefnd séum að leggja þær byrðar á hagsmunaaðila úti í samfélaginu að gefa okkur vandaðar umsagnir sem ég veit ekki hvort eru einu sinni lesnar í fjármálaráðuneytinu. Við gerum afskaplega lítið með þetta í fjárlaganefnd því meiri hluti hennar leggur venjulega ekki til miklar breytingar. Ég hef ítrekað gagnrýnt félaga mína þar.

Aðeins varðandi veiðileyfagjöldin. Ég dýrka þessa umræðu, hvort veiðileyfagjöldin hafi hækkað eða lækkað. Veiðileyfagjöldin voru 11,2 milljarðar þegar þessi ríkisstjórn tók við, eru núna 5. (Fjmrh.: Afkoman.) Já, afkoman hefur breyst. Þetta er lækkun, 11 í 5 er lækkun í öllum stærðfræðibókum sem ég hef séð. Nú eru veiðileyfagjöld það lág að þau duga ekki einu sinni til að mæta þeim kostnaði sem ríkið verður fyrir við að þjónusta greinina. Laxveiðimenn greiða meira (Forseti hringir.) í veiðileyfagjöld en útgerðin. Og í þokkabót (Forseti hringir.) var lögfest sérstök skattalækkun til útgerðarfyrirtækja sem kaupa stór skip. Þetta eru staðreyndirnar sem ég er krítískur á. Þetta þarf fólk að hafa í huga í næstu kosningum.