150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[12:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir prýðisræðu, hann fór vel yfir það sem frumvarpið hefur að geyma og þær athugasemdir sem hv. þingmaður gerir við þessar tillögur. Ég vil fyrst í fyrra andsvari koma inn á kvikmyndaendurgreiðslur sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir. Við erum sammála um mikilvægi þessara endurgreiðslna og þessa fyrirkomulags í alþjóðlegu samhengi í samkeppni við alheiminn um þessi verkefni. Ég held að það hafi verið mjög farsælt skref á sínum tíma, enda stóð Framsóknarflokkurinn að þessu þá. Ég get tekið undir með hv. þingmanni með það og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom að því áðan í framsögu sinni að skoða megi fyrirkomulagið, hvernig við högum greiðslunum og fjárheimildunum.

Ég ætla að skilja eftir spurningu þó að hv. þingmaður hafi sjálfur svarað sinni eigin athugasemd, af því að við eigum a.m.k. eftir að leggja fram fleiri fjáraukalagafrumvörp að hausti. Ég velti því fyrir mér af því að óvissan er svo mikil, hverjum við getum tekið á móti og hvernig o.s.frv. Er ekki rétt að við leggjum mat á það? Ég held að þessi tillaga, eins og hún birtist hér, um að hreinsa upp það sem hefur safnast upp sé mjög sterk vísbending um vilja til að mæta þeirri eftirspurn sem verður, verkefnunum sem vilja koma, á forsendum sem gera okkur kleift að taka á móti þeim. Ég held að það sé að vinna fyrir fjárlaganefnd að fá mat á það og mæta því þegar þar að kemur og ég held að það sé sameiginlegur vilji (Forseti hringir.) okkar allra í því.