150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:31]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og frumvarpið, sem ég held að sé að mörgu leyti mjög þarft og gott. Það sem mig langar til að spyrja um fyrst snýst um að verið var að ræða hér aðeins um skilyrði fyrir lánveitingunni. Það vakti athygli mína í frumvarpi til fjáraukalaga, þar sem er verið að tala um kynjaða fjárlagagerð, að sagt er að fjáraukinn hafi ekki nein áhrif á eða breyti neinu ástandi varðandi hagsmuni kynjanna, en svo segir hér, með leyfi forseta:

„Heimild til framlaga til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu gæti mögulega stuðlað að auknu jafnrétti svo fremi sem hugað verði að kynjasjónarmiðum við útfærslu mótframlagslána til sprotafyrirtækja og fjárfestingarstefnu Kríu.“

Þá er fyrri spurningin: Hvernig hyggst ráðherra beita sér í því að setja slík ákvæði og hvers eðlis yrðu þau?

Síðan langar mig að beina annarri spurningu til hæstv. ráðherra. Nú veit ég auðvitað að þetta kemur fram sem eitt af Covid-frumvörpunum og nú er þó gert ráð fyrir því að heimildin taki einungis til rekstrarfjármögnunar á árinu 2020, en ég er samt að velta fyrir mér hvort menn hafi ekki hugleitt hvort einmitt í tilfelli þeirra fyrirtækja væri ekki skynsamlegt að framlengja tímann, t.d. fram á mitt næsta ár (Forseti hringir.) til að reyna að tryggja eftir mætti að sem flest fyrirtæki njóti góðs af (Forseti hringir.) úrræðinu, sem vissulega er ágætt.