150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:36]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil svar ráðherrans þannig að það séu meira og minna brostnar vonir sem birtast í kaflanum um kynjaða fjárlagagerð í fjáraukanum. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi. Hin spurningin sem ég beindi til hæstv. ráðherra var hvort menn hafi íhugað að þetta úrræði tæki til lengri tíma. Ráðherra kemur hugsanlega inn á það í seinna andsvari sínu.

Síðan er ég að velta fyrir mér fjárhæðinni. Hæstv. ráðherra kom réttilega inn á að það er erfitt að vita hversu eftirsótt þetta verður eða hvernig það fer. Hins vegar er í fjáraukanum gert ráð fyrir því að skipta fjármununum sem ætlaðir voru í Kríusjóðinn á milli þessa úrræðis og Kríusjóðsins, sem ég tel að sé óráð.

Ég velti líka fyrir mér hvort ekki sé rangt að ætla bara 500 milljónir í sjóðinn núna. Það ætti að hafa heimildina hærri vegna þess að í greinargerð frumvarpsins kemur eiginlega fram að trúlega muni þurfa að skerða þessi lán, þ.e. ef þar er enn umframeftirspurn verður að skerða þau pro rata. Það er mjög vont þegar fjárfestir er búinn að ákveða að veita lán og gerir ráð fyrir að fá tiltekna upphæð á móti frá ríkinu í sams konar lán. Ef síðan kemur í ljós að það þarf að skera það niður breytast þessar forsendur strax. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að fjárheimildir væru þess eðlis að ef þær væru ekki fullnýttar féllu þær niður. Ég spyr: Væri ekki skynsamlegra að hafa þessa heimild hærri en 500 millj. kr. til að hafa borð fyrir báru?