150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:40]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra og í andsvörum við hana þá tel ég að þetta frumvarp megi bæta og laga. Mér finnst hæstv. ráðherra skauta býsna létt fram hjá því sem ég gerði að umtalsefni, sem varðar væntingar þeirra sem munu leita í þetta úrræði. Það getur verið ærið verkefni fyrir nýsköpunarfyrirtæki, sprotafyrirtæki, hvað þá fyrirtæki sem er illa statt, að fá fjárfesta til að lána því fé eða að fjárfesta í því. Það getur tekið langan tíma.

Þegar fjárfestir tekur ákvörðun sína byggir hann hana á einhverjum áætlunum um framtíð þess fyrirtækis og væntanlega setja menn þá fé til þess sem þeir hafa trú á að dugi til að halda fyrirtækinu á lífi. Þess vegna er það þannig að ef fjárfestir er tilbúinn til að koma með 100 milljónir inn í fyrirtæki gerir hann það í þeirri trú að aðrar 100 komi á móti. Ef kemur síðan í ljós að einungis 50 milljónir koma á móti þá eru allar forsendur brostnar fyrir ákvörðun fjárfestisins. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli.

Þess vegna vil ég endurtaka og ítreka hversu mikilvægt það er að úrræði af þessu tagi séu fyrirsjáanleg og hægt sé að treysta á þau. Það að fá skilaboð um að maður fái mótfjármögnun, en hún sé að vísu háð því að það sé takmarkað fjármagn og aðstoðin verði bara pro rata, er ekki aðferð sem á að beita í þessum tilvikum. Þetta er bara mjög gallað.

Ég skora á hv. nefnd sem fær þetta ágæta mál til umfjöllunar, sem og fjárlaganefnd, til að gera þessar úrbætur. Mér finnst það miður að hæstv. nýsköpunarráðherra hafi ekki betri skilning á því hvernig svona málum þurfi að vera hagað og það veldur mér vonbrigðum að hún lýsi því yfir að þetta sé bara nánast fullkomið úrræði og 500 milljónir hljóti að vera nóg. Svo verði menn bara sjá til og fara aðrar leiðir. Þá er alveg eins gott að sleppa svona úrræði ef ekki er hægt að treysta á það. Það er mín bjargfasta skoðun.

Ég held að mjög mikilvægt sé að menn skilji hvað felst í því að reyna að koma upp nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Ef ríkið ætlar á annað borð að koma til aðstoðar verður það að gera það með þeim hætti að hægt sé að treysta á þá aðstoð. Það getur vel verið að það sé betur heima setið en af stað farið ef svona er staðið að málum.

Þetta vildi ég láta koma mjög skýrt fram við þessa umræðu. Frumvarpið er ágætisgrunnur að góðri lausn en hana þarf að lagfæra.