150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem hann hóf með því að segja eitthvað á þá leið að frumvarpið væri áhugavert. Ég verð að segja að mér fannst ræða hv. þingmanns áhugaverð, ekki síst svar hans við spurningum hv. þingkonu Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur. Við þingmenn fengum í dag skýrslu, hún er nýdottin inn til okkar, sem Ríkisendurskoðun tók saman um hlutabótaleiðina. Þar kemur skýrt fram að fyrirtæki með öflugan rekstur og traustan efnahag sóttu um þá leið. Ég held að það sannist nú að við getum ekki treyst því að fyrirtæki meti það sjálft hvort það þurfi á stuðningi að halda eða ekki. Við verðum að setja skýr skilyrði. Þegar við ræddum um hlutabótaleiðina vorum við að hugsa um starfsmennina, við sögðum: Þetta er fyrir starfsmenn fyrirtækja í erfiðri stöðu. Síðan sækja stór og stöndug og öflug fyrirtæki sér stuðning. (Forseti hringir.) — Ég hélt, herra forseti, að ég hefði tvær mínútur í fyrra andsvari?

(Forseti (HHG): Svo er.)

Er ég búin að tala svona lengi? Spurningin er til hv. þingmanns: Hvernig líst honum á leið Samfylkingarinnar um að fyrirtæki greiði eftir getu þegar faraldurinn hefur gengið yfir?