150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þingmaðurinn spyr um tillögu um að fyrirtæki skuli færa loftslagsbókhald og það sé skilyrði fyrir stuðningi. Ég algerlega sammála því að skilyrði eigi að vera um það almennt að fyrirtæki þurfi að færa slíkt loftslagsbókhald og skila því inn. Ég veit ekki alveg hvort það er rétti vettvangurinn þegar fyrirtækið er í björgunaraðgerðum að setja þetta skilyrði fyrir því að þau geti fengið þennan stuðning, jafnvel þó að það sé ekki mikið íþyngjandi. Það má kannski útfæra hugmyndina þannig að það verði á engan hátt íþyngjandi fyrir fyrirtækin en verði svona — nú vantar mig íslenska orðið yfir „symbólískt“, herra forseti, ég biðst velvirðingar — „symbólískt“ vink, skulum við segja. Ég er ekki viss um að sú tillaga (Forseti hringir.) sem hér er sé þannig. En takist hv. þingmanni að sannfæra mig eða aðra um það (Forseti hringir.) finnst mér sú leið vera skoðunar virði. En í því felst ekki skuldbinding um að ég muni styðja tillöguna eins og hún kemur fram.