150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ályktun sú sem þingmenn fengu senda áðan er löng og snýr að fjölmörgum atriðum en ég get fullvissað þingmanninn um það að öll þau atriði sem þar koma fram voru rædd í nefndinni og var tekið tillit til. Það er ekki þar með sagt, eins og ég sagði áðan, að í einu og öllu sé farið eftir öllum athugasemdum stúdenta. En auðvitað voru þessi mál rædd fram og til baka eins og þingmaðurinn veit. Hann nefndi sjálfur áðan að málið kom til nefndar fyrst 5. nóvember. Það er í þriðja sinn sem það er lagt fram á Alþingi þannig að vinnan við málið hefur verið afar vönduð og nefndarmenn hafa lagt sig fram um að grandskoða það og alla anga þess. Ástæðan fyrir því að sett er inn endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár er ekki sú að nefndarmenn telji málið það lélegt heldur akkúrat þvert á móti. Eins og þingmaðurinn sagði áðan er fólk t.d. að velta fyrir sér kynjaáhrifunum. Slíkt er ekki hægt að segja til um fyrr en lögin hafa tekið gildi og er komin reynsla á þau. Það getur þingmaðurinn sagt sér sjálfur. Hið sama er með fjölmargar aðrar forsendur sem liggja til grundvallar sem margsinnis koma fram í gögnum málsins eins og að þeim aðilum, og þingmaðurinn hóf sína ræðu þannig, hefur fækkað sem sækja um námslán. Við vitum ekki, t.d. með tilliti til Covid-faraldursins, hversu margir muni sækja um lán á næstu mánuðum og árum, á hvaða aldri þeir verða og af hvaða kyni. Það segir sig svolítið sjálft. Þannig að eðlilega leggur nefndin til að þetta verði gert svona, þ.e. það séu forsendur til að meta áhrifin eftir þrjú ár vegna þess að það getur ekki nokkur maður vitað þær nú. (Forseti hringir.) En ég læt þetta duga að sinni enda er tíminn útrunninn.

(Forseti (Þors): Forseti minnir á þann góða sið að hv. þingmenn ávarpi hver annan sem háttvirta.)