150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[12:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Loftslagsváin er stærsta sameiginlega vandamál mannkyns sem við þurfum að glíma við og við þurfum að glíma við þann vanda saman, líkt og við og fólk úti um allan heim erum að takast á við þennan faraldur sem nú gengur yfir. Loftslagsváin hverfur ekkert eða tekur pásu á meðan við erum að glíma við heimsfaraldur. Við þurfum að gera þá kröfu til fyrirtækja sem fá stuðning úr ríkissjóði, ég tala nú ekki um þau fyrirtæki sem ætla að segja fleiri en tíu manns upp með þessari leið og fá tugi milljóna til reksturs vegna þess, þá einföldu kröfu að setja loftslagsmálin á dagskrá, taka stöðuna á loftslagsbókhaldi fyrirtækjanna og gera áætlun til næstu fimm ára. Þetta er táknrænt, þetta er ekki íþyngjandi en það skiptir máli (Forseti hringir.) að gefa þau skilaboð að stjórnvöld hafi ekki gleymt loftslagsmálunum (Forseti hringir.) í heimsfaraldrinum og setji þau á dagskrá hjá fyrirtækjunum.